Nýja myndavélin í Hubble-sjónaukanum, „Wide Field Camera 3“ hefur nú fundið hraða og ákafa nýmyndun stjarna í stjörnuþoku sem helst minnir á flugeldasýningu. Stjörnuþokan kallast M83 og sést frá suðurhveli jarðar.
Nýju myndirnar frá Hubble sýna miklu meiri fjölbreytni í stjörnuþróun en áður hefur sést. Við jaðar dökkra skýsvæða í M83 má sjá fjölda ungra stjarna, sem aðeins eru nokkurra milljón ára. Ljósið frá þeim er einmitt í þann veginn að brjóta sér leið út úr rykþykkninu sem þær mynduðust úr og lýsa nú upp umhverfið þar sem mikið er af vetnisríku gasi, sem aftur svarar með því að gefa frá sér rauðleitt skin.
Þar sem öflugir stjörnuvindar með rafhlöðnum efniseindum frá þessum ungu stjörnum hafa blásið vetnisgasinu alveg í burtu, má greinilega sjá í bláleitar þyrpingar stjarna á bak við. Þarna eru stjörnurnar allt að 10 milljón ára og munu springa sem sprengistjörnur eftir nokkrar milljónir ára til viðbótar.