Í upphafi ársins 1943 réðu kafbátar nasista ríkjum á Atlantshafi þar sem tókst að sökkva mýmörgum flutningaskipum bandamanna með aðstoð kafbátanna. Herskip voru látin fylgja berskjölduðum skipalestunum til að verja flutningaskipin.
Flugmóðurskip með flugvélum hefðu hentað fullkomlega en þeim höfðu bandamenn einfaldlega ekki yfir að ráða í nægilegu magni. Miklu magni stáls hefði þurft að verja í byggingu skipanna og skortur var á stáli. En enski uppfinningamaðurinn Geoffrey Pyke dó ekki ráðalaus: Hvernig væri að útbúa flugmóðurskip úr viði og ís?
Ekki trúðu margir á hugdettu mannsins, þ.e. ekki fyrr en breski sjóliðsforinginn Mountbatten lávarður hélt sýningu fyrir hóp liðsforingja. Mountbatten notaði hermannabyssu sína til að skjóta fyrsta ísjakann í sundur.
Mountbatten lávarður var nátengdur bresku konungsfjölskyldunni og hann var mikill talsmaður þess að smíða flugmóðurskip úr ís.
Því næst skaut hann á ísjaka gerðan úr sagi og ís. Byssukúlan skoppaði af yfirborði jakans, þeyttist gegnum buxnaskálm á hershöfðingja einum og staðnæmdist að lokum í vegg.
„Kúlan suðaði kringum fætur okkar líkt og brjáluð býfluga“, ritaði breski yfirhershöfðinginn Alan Francis Brooke í dagbók sína. Sýningin sannfærði herstjórn bandamanna og hafist var handa við bygginguna.
Frumgerðin var gerð í Kanada
Verkefnið hlaut dulnefnið „Habakkuk“, í höfuðið á spámanni nokkrum í biblíunni. Fyrirhugað var að byggja 600 m langt skip, helmingi lengra en Títanik sem 300 flugvélar kæmust fyrir á. Ætlunin var að gera ísbúkinn stöðugan með málmgrind og koma fyrir í honum rörum með kælivökva til þess að skipið bráðnaði ekki.
Frumgerð var útbúin á Patricia stöðuvatninu í Kanada. Um er að ræða eyðilegt stöðuvatn í köldu loftslagi þar sem lítil hætta væri á árvökulum augum hugsanlegra njósnara.
Teikning sýnir hvernig flugmóðurskip úr ís og sagi gæti litið út. Í dag liggja leifar af frumgerðinni á botni Patricia Lake í Kanada. Þ.e. það sem ekki var byggt úr ís.
Byggingarefnið sem kallaðist „pykrete“ í höfuðið á Geoffrey Pyke, samanstóð af 14% af sagi og 86% af vatni. Kælibúnaður sá um að frysta blönduna sem skorin var í blokkir og notuð í skipsskrokkinn.
Áætlunin var gefin upp á bátinn árið 1944, þegar í ljós kom að kostnaðurinn yrði of mikill, auk þess sem skipalestir bandamanna höfðu náð yfirhöndinni í baráttunni við kafbátana. Kælibúnaðurinn var fjarlægður og frumgerðin bráðnaði á þremur sumrum.