Allt frá því í árdaga mannkyns hafa menn reynt að sjá inn í framtíðina. Það á við Babýlóníumenn fornaldar sem horfðu til himinfestingarinnar, enda töldu þeir að staðsetning stjarna og pláneta gæti gefið vísbendingar um komandi framtíð, meðan Rómverjar spáðu m.a. í innyfli dýra.
Stjörnuspekin þrífst ennþá ágætlega en í stað innyfla eru komnar draumráðningar, tarot-spil og kaffibollar. Áhuginn á því að þekkja framtíðina styrktist enn frekar á nítjándu öld þegar uppfinning gufuvélarinnar sýndi mönnum fram á hve hratt heimurinn gæti breyst.
Einkum þegar gufuknúnar lestir gerðu mönnum kleift að ferðast þvert yfir meginlönd á mettíma og gufuskip þveruðu úthöfin án hjálpar frá vindinum.
Rithöfundar eins og Jules Verne og H.G. Wells skrifuðu hverja metsölubókina á fætur annarri um hin merkilegu tækniundur komandi framtíðar – og árið 1899 birti franski teiknarinn Jean Marc Côté hugmyndir sínar um hvernig hversdagslífið yrði árið 2000.
Côté var enginn spámaður en hann nýtti sér þekkingu sína á nýjustu uppfinningum vísindamanna og aðlagaði þær hversdegi manna um hundrað árum síðar.
Stundum hafði Frakkinn á réttu að standa – sem dæmi sá hann fyrir að fyrsta þyrlan myndi taka á loft á 20. öldinni.
Póstburður í lofti
Póstburðarmaðurinn á teikningunni virðist vera kyrr í lofti þegar hann afhendir bréfið, þar sem hreyfillinn er jú hreyfingarlaus.
Póstsendingar framtíðarinnar eru í lofti
Côté skaut langt fram hjá þegar kom að póstþjónustu framtíðar. Á okkar tímum hefur netpóstur nánast komið alveg í staðinn fyrir venjuleg bréf.
En hugmynd teiknarans er samt sem áður ekki svo galin. Frá árinu 2013 hefur bandaríska netfyrirtækið Amazon gert tilraunir með að senda pakka með drónum – án þess þó að vinalegur póstburðarmaður eigi þar í hlut.
Loftskip
Í fyrri heimsstyrjöldinni nýttu Þjóðverjar loftskipin til að gera sprengjuárásir á London en auðvelt reyndist að skjóta þau niður. Árið 1917 höfðu Bretar skotið 77 af 115 loftskipum Þjóðverjanna niður.
Zeppelinar ráða ríkjum í loftinu
Þýski liðsforinginn Graf von Zeppelin gerði tilraunir upp úr 1890 við smíðar á stýranlegum loftskipum í stífum ramma. Erfiðið bar ávöxt árið 1900 og þannig fékk Côté innblástur varðandi hugmyndir sínar um flug framtíðar.
Hann sá fyrir sér að loftskip myndu ráða ríkjum í loftinu, bæði á friðartímum og í stríði en honum yfirsást grundvallar veikleiki í uppfinningu Þjóðverjans: Loftskip eru hægfara, risastór og auðvelt að skjóta þau niður. Brynvarnir auka einungis þennan innbyggða vanda.
Hljóðbylgjur
Hugmyndin um að börn og unglingar myndu í framtíðinni tileinka sér þekkingu með hljóðbylgjum hefur reynst vera harla rétt.
Hljóðbylgjur yfirtaka kennslustofuna
Á síðari árum hafa hljóðbylgjur slegið í gegn. Spurn eftir upplesinni kennslu og afþreyingu í formi hljóðbylgja og hlaðvarpa virðist einungis ætla að aukast enn frekar á komandi árum.
Côté sá fyrir sér viðlíka þróun og hann var mjög bjartsýnn í trú sinni á að hið ritaða orð myndi breytast í hljóð, meðal annars með hakkavél fyrir bækur.
Hvalastrætó
Þrátt fyrir að kafbátar hafi verið algengir allt frá upphafi 20. aldar hafa engir slíkir verið knúnir áfram af hvölum enn sem komið er.
Hversdagslegar neðansjávarferðir
Þegar kom að neðansjávarbátum kaus Côté aðra tækni en kafbát Jules Vernes í sögunni „Sæfarinn: Ferðin í kring um hnöttinn neðansjávar“.
Kafbátur Vernes er öllu nær raunveruleikanum nú, heldur en þjálfaður skíðishvalur sem Côté ímyndaði sér að myndi knýja farartækið áfram. Yfirleitt eru ferðir neðansjávar yfirleitt aðeins á færi fárra vísindamanna, sjóliða og einstaka moldríkra ævintýramanna.
Vélrænn klæðskeri
Maskína sem getur hratt og örugglega saumað föt eftir óskum kúnnans er ennþá fjarlægur draumur.
Klæðskerasaumuð föt á augabragði
Iðnvæðingin hafði á tímum Côtés skapað heim, þar sem maskínur auðvelduðu fjöldaframleiðslu ýmissa hluta. Teiknarinn ímyndaði sér að í framtíðinni myndu maskínur einnig geta sinnt sérhæfðari verkefnum, eins og til dæmis að klæðskerasauma fatnað.
En í staðinn fyrir mekanískan klæðskera bauð framtíðin upp á staðlaðar fatastærðir. Ekki er þó mjög fjarstæðukennt að hægt verði að yfirfæra hugmynd teiknarans í þrívíddarprentara einhvern tímann.
Húsbílar
Þrátt fyrir að farartækið sé á stærð við hús hefur teiknarinn ekki fundið rými fyrir innbyggðan stjórnklefa handa ökumanninum.
Hjól sett undir heimilið
Côté var nokkuð spámannlega vaxinn þegar hann fékk þá hugmynd að hægt væri að flytja heimili manna milli staða. Segja má að hann hafi eiginlega átt kollgátuna. Núna er algengt að fólk ferðist í húsbílum sem innihalda rúm, salerni eldhús og lítinn borðkrók.
En þessi skrautlega útfærsla Côté með gufuknúnu farartæki líkist frekar rúllandi gistihúsi en nothæfum húsbíl. Ferrðalög í þessum klunnalega húsbíl í umferð okkar tíma væru vafalítið martröð fyrir þrautreynda ökumenn.
Efnafræðikokkar
Matgæðingar á mörgum fremstu veitingahúsum heims ganga vísindalega til verks þegar þeir skapa nýja rétti.
Efnafræðingar heilla í eldhúsinu
Hugmyndin er nokkuð augljós: Eftir því sem vísindin afhjúpa samsetningu allra hluta verður hægt að elda matinn á rannsóknarstofum samkvæmt Côté.
Teiknarinn gat þó ekki ímyndað sér að hægt væri að búa til gervikjöt en forspá hans er samt sem áður nokkuð góð.
Borgir framtíðar skulu bjarga loftslaginu
Úthverfin hverfa af landakortinu og mýrasvæði leggja undir sig göturnar. Borgir framtíðarinnar verða óþekkjanlegar. Hér færðu innsýn í það vistvæna borgarskipulag sem í nokkuð náinni framtíð á að verða heimkynni svo margra.
Matarboð
Teiknarinn sá fyrir sér að sjálfur maturinn myndi breytast en framreiðslan yrði hin sama og á dögum Viktoríu drottningar.
Veislugestum boðið upp á pillur
Ein rökrétt afleiðing af hugmyndum Côtés um framtíðina með kemískt tilbúnum matvælum, var einfaldlega sú að maturinn myndi að sjálfsögðu koma í pilluformi.
Pillan er jafngömul sjálfu Rómarveldi og sagnaritarinn Plíníus eldri lýsti þegar á fyrstu öldum eftir fæðingu Krists fyrirbærinu pilula. Pillu þessa mátti fylla af orku og hollustu.
Í raunveruleikanum hafa pillur ekki komið í staðinn fyrir góðar máltíðir en þær eru teknar inn sem fæðubótarefni.
Sjálfvirk hljómsveit
Þrátt fyrir að tónlistin hafi verið vélvædd datt teiknaranum ekki í hug að láta maskínur koma í staðinn fyrir óperusöngvarana.
Rafknúin hljómsveit skemmtir fólkinu
Listheimurinn myndi ekki heldur losna undan framförum tækninnar, að mati Côtés. Hann hafði sjálfur séð mekanískt píanó að verki sem og sjálfspilandi fígúrur, svo nú þurfti bara að láta hið sama gilda um sjálfa hljómsveitina.
En hér hafði hann rangt fyrir sér. Hljómsveitir samanstanda ennþá af lifandi tónlistarmönnum og forritaðir hljóðgervlar geta ekki komið í staðinn fyrir menn af holdi og blóði.
Myndband: Horfðu á módelfígúrur spila tónlist
Kjarnorka
Teikningin frá 1899 getur vel verið ein af þeim fyrstu sem sýnir friðsamlega nýtingu kjarnorkunnar.
Radín í staðinn fyrir eldivið í arni heimilanna
Hjónakornin Pierre og Marie Curie uppgötvuðu frumefnið radín árið 1898 eða ári áður en Côté teiknaði mynd sína. Frakkinn var heillaður af þessu efni sem virtist alltaf gefa frá sér varma og mætti því nota í arininn í staðinn fyrir eldivið.
Nú er notkun kjarnorkunnar algeng en Côté gerði sér enga grein fyrir þeirri geislunarhættu sem gerir að verkum að lífshættulegt er að taka geislavirk efni með sér inn á heimilið.