Vinnuveitendurnir tóku alla sem buðust
Margar fátækar konur sem iðulega voru ólæsar vörðu ævinni á akrinum.
Þær höfðu þó raunar einnig úr öðru að velja. Sumar gerðust grátkonur sem fengu greitt fyrir að gráta fyrir framan byggingar þar sem verið var að smyrja þá látnu.
Vefnaðarframleiðsla, bakstur og ölgerð voru einnig vinsælar starfsstéttir. Konur gátu beinlínis orðið stjórnendur vefarahópa.
Skreyting á gröfum í Sakkara sýnir enn fremur konur selja brauð, öl og fisk. Á einni af veggmyndunum má sjá konu skamma mann á meðan hún siglir skipi inn í höfnina. „Vertu ekki að spilla útsýni mínu á meðan ég leggst að með skip mitt“, hvæsir hún samkvæmt myndletrinu.
Konur unnu m.a við að mala malt til að brugga bjór.
Gullöld í Egyptalandi af völdum kvenfaraós
Hatsepsút var sú áræðnasta af öllum kvenfaraóum Egyptalands en þær voru alls minnst sjö talsins.
Verslun og menning ríkisins voru í mestum blóma í stjórnartíð hennar. Hún fékk því áorkað að heill floti verslunarskipa var sendur alla leið til reykelsislandsins Punt (að öllum líkindum þar sem nú er Sómalía) þar sem Egyptar versluðu með fílabein, gull og myrru.
Þessi atorkusama kona var heldur ekki bangin við að beita her sínum og átti m.a. í skammvinnu stríði við Núbíumenn í suðri.
Þess má einnig geta að hún lét reisa hvað flestar byggingar allra leiðtoga í Egyptalandi, m.a. hundruð mustera og önnur mannvirki víðs vegar í landinu. Fyrir vikið var hún oft nefnd „fyrsta mikla kona sögunnar“.
Konur drukku frá sér vit og rænu
Í skondnu egypsku hollráði segir sem svo: „Fyllerí gærdagsins á ekki að eyðileggja þorsta dagsins í dag“. Sæmandi orð um yfirstéttarkonur sem skipulögðu ótalmargar óhóflegar veislumáltíðir fyrir vini sína.
Meðan á veislum þessum stóð var borin fram ofgnótt víns og matar á meðan dansarar og hljóðfæraleikarar skemmtu gestunum.
Notkun áfengis var svo sannarlega ekki einungis ætluð karlmönnum. Konur virðast hafa haft fullt leyfi til að láta allar hömlur um lönd og leið.
Á veggmynd einni hjá hinum svonefndu Paheri-gröfum frá 15. öld f.Kr. má sjá konu hrópa á þjónustustúlku sína: „Færðu mér 18 bikara víns, ég ætla að drekka mig fulla, háls minn er þurr sem hálmur!“
Kvenprestar fóðruðu heilaga íbís-fugla í Karnak-musterinu.
Musterin voru full af konum
Þær konur sem voru það góðum efnum búnar að þær þyrftu ekki að vinna komust oft til metorða sem kvenprestar í einu hinna ótalmörgu mustera Egyptalands. Verkefni þeirra fólust m.a. í að taka við fórnargjöfum til guðalíkneskjanna, klæða þau í og úr, bera á þau ilmefni og vaka yfir þeim á nóttunni.
Konur voru sérlega virkar í musterum sem reist höfðu verið til heiðurs kvengyðjum. Merkust þeirra var ástargyðjan Haþor, svo og Ísís sem m.a. var tilbeðin vegna læknandi eiginleika hennar.
Eiginkonur gátu varpað eiginmönnum sínum á dyr
Hjónabandið táknaði ekki að egypskar konur glötuðu sjálfstæði sínu. Þær gátu haldið eigum sínum og meira að segja lánað öðrum fé: Í texta nokkrum er því m.a. lýst hvernig kona með fjármálavit lánaði eiginmanni sínum þrjá silfurmola gegn árlegum vöxtum sem námu heilum 30 prósentum.
Konur gátu jafnframt farið fram á skilnað ef maðurinn reyndist ónytjungur og þær gátu gengið í hjónaband á nýjan leik, þó stundum gegn greiðslu.
Í hjónabandssáttmála frá árinu 340 f.Kr. ritaði kona nokkur manninum sínum af hispursleysi:
„Ef ég hafna þér sem eiginmanni sökum þess að mér líki ekki lengur við þig og vilji velja mér annan mann, þá ber mér að greiða þér 22 g silfurs og láta þér eftir þriðjung sameiginlegra eigna okkar“.
Engar fjölskyldur létu deyða stúlkubörn
Bæði Grikkir og Rómverjar báru út nýfæddar dætur sínar sem fæðu fyrir villidýr sökum þess að þær voru álitnar vera baggi á fjölskyldunni. Drengir gátu hins vegar fært fjölskyldunni auðævi og upphefð. Þetta var hins vegar óhugsandi í Egyptalandi.
Þar gátu stúlkur nefnilega unnið og aflað fjölskyldu sinni fjár. Gamalt egypskt ráð hljóðaði fyrir vikið þannig:
„Þú skalt koma eins fram við börnin þín. Þú veist aldrei hvert þeirra á eftir að koma vel fram við þig“.