Tafarlaus meðhöndlun kynni í framtíðinni að bjarga hreyfigetu fólks sem hryggbrotnar.
Ákveðin genameðferð hefur allavega reynst draga úr mænusköddun í músum og rottum. Bandarískir vísindamenn, m.a. hjá Maryland-læknaháskólanum, hafa komist að því að það getur haft afar jákvæð áhrif að loka fyrir ákveðið gen í þessum dýrum eftir hryggbrot.
Það gildir bæði um mýs og menn að við hryggbrot sýnir líkaminn ofsakennd viðbrögð sem leiða til þess að ferli sem annars ætti að vernda frumurnar, drepur frumur í mænunni. En sé lokað fyrir áhrif gensins ABCC8 tókst vísindamönnunum að draga úr þessari sjálfseyðingu og bæði tilraunamýs og -rottur jöfnuðu sig betur eftir mænusköddunina.
Menn hafa sama gen og það virkar eins. Þess vegna gera vísindamennirnir sér nú vonir við að hægt verði að bjarga mörgum mænusködduðum sjúklingum, ef nógu snemma er unnt að gefa þeim lyf sem lokar fyrir genið ABCC8. Enn þarf þó margra ára rannsóknir áður en slíkt lyf kemst á markað.