Bæði menn og dýr eiga á hættu að meðgöngu ljúki fyrir eðlilegan tíma. Ýmsar ástæður geta verið fyrir þessu, svo sem fæðuskortur eða kuldi, en líka eiturefni, sjúkdómar eða jafnvel erfðagallar.
Þegar afkvæmi fæðast svo vanburða að þau geta ekki lifað utan legsins er talað um fósturlát, en í flestum tilvikum birtast engin sýnileg ummerki um endalok meðgöngunnar.
Mjög ung fóstur leysast einfaldlega upp í móðurlífinu. Þetta er mjög algengt fyrirbrigði í dýraríkinu og gerist yfirleitt mjög snemma, eða meðan væntanlegt afkvæmi er enn aðeins svonefndur fósturvísir. En þroskaðri fóstur geta þó einnig leyst upp. Þetta kemur m.a. fyrir meðal nagdýra, kanína, svína, katta og hunda.
Meðal hunda er algengt að fóstur nái ekki að þroskast. Rannsóknir hafa sýnt að flækingstíkur í borgum í þróunarlöndum eiga mjög oft á hættu að missa fóstur. Þessir flækingshundar lifa við afar erfið skilyrði, búa oft við matarskort og sjúkdómar eru algengir.
Til að auka líkurnar á vel heppnaðri þungun og að afkvæmin komist á legg, fæða mörg spendýr afkvæmi sín á heppilegum árstíma, sem sagt þegar fæðuframboð er mikið. Þetta er ein af ástæðum þess að kvendýr spendýrategunda – að undanteknum æðri prímötum – eru aðeins móttækileg fyrir frjóvgun á ákveðnum árstímum.
Kvendýr sumra spendýrategunda hafa líka þróað þann eiginleika að geta frestað því að þroska frjóvgað egg þar til aðstæður til þungunar batna. Þess háttar hlé í fósturþróuninni eru þekkt hjá sumum nagdýrum, björnum, selum, hjörtum og leðurblökum. Þá er frumfósturvísirinn umvafinn eins konar hlífðarkápu og festir sig ekki við móðurlífsvegginn fyrr en aðstæður til áframhaldandi þroska eru orðnar vænlegri.