Útfjólubláir geislar sólarinnar geta valdið alvarlegum skaða á húðinni þegar þeir komast inn í húðfrumurnar og skemma DNA þeirra. Skemmdirnar geta bæði flýtt fyrir öldrun húðar og umbreytt húðfrumum í krabbameinsfrumur.
Sólarvörn endurkastar eða gleypir útfjólubláa geisla þannig að þeir komast ekki inn í húðina og það getur dregið úr hættu á húðkrabbameini um 40-50 prósent. En það er ekki eina leiðin til að verja þig fyrir sólinni. Holl matvæli geta líka veitt líkamanum innri vörn gegn skaðlegum geislum.
Plöntur verja sig fyrir sólinni með því að framleiða plöntuefni með efnafræðilegri uppbyggingu sem gleypa UV geislana. Og sum þessara efna geta líka verndað húðina okkar.
Tómatar innihalda sólarvörn
Eitt mest rannsakaða plöntuefnið er rauða litarefnið lýkópen. Efnið er að finna í matvælum eins og tómötum, vatnsmelónum, papaya, goji berjum og greipaldinum.
Í tilraun einni fengu þátttakendur 7 mg af lýkópeni á dag í fjórar vikur og eftir það jókst magn efnisins verulega í bæði blóð- og húðsýnum. Til samanburðar má nefna að 100 grömm af óblönduðu tómatmauki innihalda 5-15 mg af lýkópeni en ferskir tómatar geta innihaldið 1-20 mg af lýkópen í 100 grömmum.
Greining frá árinu 2023 sýnir að neysla lýkópens og tómata eykur vörn húðarinnar gegn útfjólubláum geislum og dregur m.a. úr hættu á sólbruna og litarblettum.
Sem dæmi var húð þeirra sem borðuðu 40 g af tómatmauki á dag í 10 vikur miklum mun minna rauðleit eftir útfjólubláa geislun miðað við samanburðarhóp.