Snigill sem ber hús sitt með sér, getur ekki lifað af án þess. Skelin er gróin föst við bakið og því ekki bara hægt að ganga út.
Jafnvel lítil sköddun getur orðið dýrkeypt þar eð snigillinn er viðkvæmur fyrir sýkingum og stafar hætta af rándýrum.
Þess vegna hafa skeljasniglar þróað með sér hæfni til að gera við minni háttar göt og sprungur.
Skelin er um 95% úr kalki sem er eitt og sér ekki sérlega sterkt efni en styrkurinn þrjúþúsundfaldast með íblöndun annarra efna, einkum prótína.
Að innan er skelin fóðruð með vef sem snigillinn notar sem kalkforðabúr.
Skaddist skelin berst kalk úr þessum vef út í skelina. Þegar tekur að ganga á kalkið framleiða blóðfrumur snigilsins mikið af kalsíumkarbónati til að gera við gatið.
Og reyndar hyggjast menn nú nýta sér kunnáttu snigla til viðgerða. Vísindamenn vonast til að geta líkt eftir viðgerð snigils á skel sinni til að hraða beinvexti og flýta því þannig að skemmd bein grói.
Gerir við skelina á viku
Rétt eins og mannslíkaminn er fær um að græða brotin bein, hefur snigillinn tækni til að gera við hús sitt.
1. Himna virkar sem plástur
Fáeinum tímum eftir sköddun myndast gagnsæ himna yfir sárið. Himnan virkar sem plástur og verður jafnframt skapalón fyrir síðari kölkun.
2. Kalklag tekur form
Sex tímum eftir sköddunina hefur fyrsta kalklagið bæst ofan á himnuna. Kalk heldur áfram að berast og byggja skelina upp.
3. Skelin grær
Eftir stöðugt kalkstreymi út í skelina í vikutíma hefur gatið lokast og má heita gróið að fullu.