Samkvæmt hinni frægu jöfnu Einsteins E = mc² eru orka og efni tvær hliðar á sama fyrirbrigðinu. Þessar tvær hliðar tengjast með fastri tölu sem reyndar er óheyrilega stór, nefnlega ljóshraðinn í öðru veldi. Sú tala væri skrifuð með 9 og 16 núllum á eftir. Efnismassi er þannig afar samþjappað form orku.
Öreindaeðlisfræðingar virða jafnaðarlega fyrir sér hvernig hreyfiorka breytist skyndilega í efni þegar nýjar öreindir myndast við árekstur annarra einda.
Dæmi um þetta er svonefnd parmyndun þegar rafeind og andeind hennar verða til úr einni ljóseind. Hér umbreytist rafsegulorka í efni, alveg í fullu samræmi við jöfnu Einsteins.