Á varptímanum geta karlsvanir verið mjög á varðbergi gagnvart öllu því sem þeir telja geta ógnað hreiðri sínu og ungum.
Karlinn blæs sig þá út og hvæsir illilega.
Hvort heldur íslenski svanurinn eða t.d. náfrændi hans, hnúðsvanur nágrannalandanna, getur í þessum stellingum orðið býsna ógnvænlegur, jafnvel í augum manna, og atferlið hrekur andstæðinginn yfirleitt á brott.
Svanir hafa vissulega ráðist á menn og jafnvel valdið meiðslum, en ekki munu þó vísindalega skráð nein dæmi um alvarlega áverka á mönnum af völdum þessara fugla.
Auðvelt er hins vegar að finna dæmi þess að svanir hafi t.d. bitið illilega í fingur og dýrafræðingurinn Stephen Moss telur að undir ákveðnum kringumstæðum geti verið hættulegt að fara of nærri svönum – sérstaklega þó fyrir börn.
En jafnvel þótt svanir séu kannski ekki jafn hættulegir og sumir halda, er þó full ástæða til að umgangast þá af varúð – rétt eins og öll önnur dýr.