Alheimurinn

Glæstur endir

BIRT: 04/11/2014

Skerandi þrumugnýr og hvítglóandi ský af gasi og logum auðkennir upphafið á hinum glæsta endi Apollo-leiðangranna. Klukkan er 0,33 þegar Saturn V-eldflaug leysir úr læðingi sína gríðarlegu krafta í næturmyrkrinu, þann 7. desember 1972. Stórbrotin sjón fyrir fjölmarga áhorfendur og uppfylling drauma þriggja geimfara um borð.

Gene Cernan, Ron Ewans og Harrison Schmitt hafa verið valdir í það tríó sem skal í síðustu heimsóknina til næsta nágranna jarðarinnar. Einkum er það jarðfræðingurinn Harrison Schmitt sem er fullur eldmóðs. Frá því hann varð árið 1965 meðlimur í fyrsta hópi fræðimanna/geimfara hjá NASA hefur hann þjálfað geimfarana í jarðfræði og eiginlega var fyrirhugað að hann yrði fyrsti menntaði fræðimaðurinn um borð í Apollo 18. Þegar sú geimferð var blásin af vegna niðurskurðar var hann valinn til að koma í stað geimfarans Joe Engle í Apollo 17. Sú ákvörðun var bæði óvænt og ánægjuleg fyrir Schmitt sem í ágúst 1971 fékk fregnirnar í símtali við Deke Slayton, yfirmann hjá NASA.

„Yes, sir, ég vil gera mitt besta,“ hafði Schmitt svarað áður en hann lagði á og fagnaði tíðindunum með því að skola niður þremur staupum af viskí.
Meðan Apollo 17 leggur jörðina að baki sér er Harrison Schmitt staðráðinn í að halda loforð sitt við Slayton. Ásamt Gene Cernan hyggst hann tryggja að þessi síðasta tunglferð verði sú besta – hann og samstarfsfélaginn munu vera lengur á yfirborðinu en fyrirrennarar þeirra, safna fleiri sýnishornum, taka fleiri myndir – hann hyggst ljúka ferðinni með glæsibrag. En fyrst og fremst vill Schmitt sanna að yfirstjórnin hafi gert rétt í að reiða sig á fræðimann í leiðangrinum. Gangi allt að óskum getur hann rutt brautina fyrir aðra vísindamenn sem eru reiðubúnir undir frekari geimferðir NASA. Mistakist honum er hætt við að hann verði bæði fyrsti og síðasti vísindamaðurinn án jarðtengingar.

Til að Harrison Schmitt geti púslað saman jarðfræðisögu tunglsins þarf hann þó að vera flugmaður á tunglferjunni Challenger og þegar farartækið undirbýr lendingu í Taurus-Littrow mánudaginn 11. desember er jarðfræði honum ekki hugleikin, heldur einblínir Schmitt á mælaborðið í Challenger. Einbeittur les hann af hæðar- og eldsneytismælum meðan Gene Cernan stýrir farartækinu niður í tunglrykið. Það er ekki fyrr en Cernan tilkynnir Houston að „the Challenger has landed“ sem Schmitt lítur upp og gægist út á þennan gullna hnött. Honum líður eins og hann hafi misst af sjálfri lendingunni en það getur hann vel sætt sig við. Því eftir fjórar stundir verður hann kominn út á vettvang sem hann hefur til þessa einungis getað skoðað úr 300.000 km fjarlægð.

Jörðin vekur lítinn áhuga Schmitts

„Hey, hver hefur skilið eftir spor á yfirborðinu mínu?“ spyr Harrison Schmitt glaðhlakkalega á leiðinni niður stigann frá Challenger. Hinn seki er Cernan sem fáum mínútum áður hefur stigið niður á tunglið og fylgist nú með félaga sínum halda sömu leið. „Boy, þú lítur út eins og þú sért rétt búinn að …“ segir Cernan. „Stíga á tunglið,“ botnar Schmitt setninguna.

Hugfangnir horfa geimfararnir í kringum sig. Einkum Schmitt, sem samstarfsfélagarnir nefna „Doctor Rock“, er sem bergnuminn af þessu lífvana landslagi sem er ólíkt öllu sem hann hefur séð á jörðu. Undir fótum hans blikar á grjótið í skörpu sólarljósinu, í dimmum og gígum þöktum dalnum liggja björg á víð og dreif sem virðast hafa oltið niður úr umliggjandi fjöllum, og til hliðar rísa brattir dalskorningar eins og pýramídar mót himni. „Ekkert annað en paradís jarðfræðings,“ ákveður Schmitt. Hann hefst þegar handa við að rannnsaka umhverfið á meðan Cernan undirbýr tunglbílinn fyrir fyrstu ferð leiðangursins.

Skyndilega tekur Cernan sér hlé frá vinnunni því hann hefur komið auga á jörðina sem hangir eins og bláhvítur lampi yfir tunglfjöllunum í fjarska. „Oh, man. Hey Jack, just stop,“ segir hann og heldur áfram: „Þú ættir að gefa þér smá tíma til að horfa yfir South Massive og sjá jörðina.“ „Hvað? Sjá Jörðina?“ undrast Schmitt. „Prófaðu bara að horfa þangað,“ biður Cernan. „Æi, þegar þú hefur séð eina jörð, hefurðu séð þær allar,“ grínast Schmitt.

Appelsínugul jörð gabbar geimfarana tvo

Þar sem fyrsta ferðin er einkum ætluð fyrir borsýni og ýmsar tilraunir bíður sú næsta upp á lengstu ökuferð í sögu Apollo-leiðangranna. Cernan og Schmitt munu leggja að baki góða 9 km í tunglbílnum til að ná fram til fjallsins South Massive, ferð sem áætluð er einnar stundar löng. Þvílíkan tíma hafa engir aðrir geimfarar notað til að komast frá einum stað til annars, en bæði jarðfræðingar á jörðu niðri og mennirnir á tunglinu vona að ferðin verði erfiðisins virði.

Væntingar þeirra reynast réttar: South Massive er sem fjársjóður af mismunandi bergtegundum og meðan Schmitt með þjálfuðu auga jarðfræðingsins velur áhugaverðustu steinana, tekur Cernan að sér hlutverk aðstoðarmannsins sem losar um sýnishorn og fyllir hvern pokann á fætur öðrum, nægilega mikið til að halda jarðfræðingum NASA uppteknum í áraraðir. M.a. finna þeir hvítt steinbrot sem reynist 4,5 milljarða ára gamalt og einn elsti steinn frá tunglinu.

Á leiðinni til baka æja mennirnir við loftsteinagíg, Shorty, þar sem Schmitt af eðlisávísun skimar yfir jörðina og kemur auga á litað svæði sem greinist frá umhverfinu. Hann lyftir upp ystu hlífinni á hjálmi sínum til að gaumgæfa þennan merkilega stað betur. „Þetta er appelsínugul jörð,“ segir hann.

„Ekki hreyfa þig fyrr en ég hef séð þetta,“ skipar Cernan sem í stutta stund furðar sig á hvort félagi hans hafi fengið sólsting. En þegar hann kemur nær sér hann að Schmitt hefur haft rétt fyrir sér. „Hvernig getur verið appelsínugul jörð á tunglinu?“ spyr hann forviða. Geimfararnir eru sammála um að þessi appelsínuguli blettur hljóti að vera ummerki um eldvirkni sem þeir hafa svo lengi leitað eftir. En eftir heimkomuna kemur í ljós að þeim skjátlast: Þarna á ferðinni eru agnarlítil glerbrot. Afleiðing árekstrar þegar loftsteinn á sínum tíma myndaði Shorty-gíginn.

Evans gleðst yfir besta starfi heims

Um borð í stjórnfarinu America á braut um tungl er Ron Evans upp á sitt besta. Frá því að hann vaknar og þar til hann leggst til svefns á ný er hann önnum kafinn. En þrátt fyrir þéttritaðar skipanir með tilraunum og athugunum er hann í essinu sínu. Sönglandi og talandi við sjálfan sig svífur hann um í klefanum og þjónustar hnappa og handföng. Þess á milli er hann að springa úr gleði yfir útsýninu til bláhvíta hnattarins í fjarlægð og gullins mánans einungis um 100 km undir honum. En hann stenst ekki mátið að deila gleði sinni með Houston og öðrum heimsbúum – allavegana þeim sem fylgjast með Apollo 17. Meðan allt að 600 milljón manns fylgdust með fyrsta skrefi Armstrongs í tunglrykinu árið 1969 er athygli fjölmiðla umtalsvert minni vegna sjöttu og síðustu tunglferðar í sögunni og takmarkast í stuttum innslögum í hléum milli endalausra sápuópera í sjónvörpum. Það eru bara aðstandendur geimfaranna og harður kjarni geimferðaáhugamanna sem láta sig varða hlutskipti Bandaríkjamannanna þriggja sem rita síðasta kapítulann í Apollo-sögunni. En fyrir Ron Evans – eða Captain America eins og Cernan kallar hann – er draumur hans hér að rætast. Hann segir starf sitt sem geimfara vera „besta starf í heimi“ en þrátt fyrir að hann njóti sérhvers augnabliks er hann einnig farinn að þreytast á eigin félagsskap. „Úff, þvílík stybba af mér. Sápa kemur að engum notum. Ég hlakka til þegar strákarnir snúa aftur til baka með svitalyktareyðinn. Þeir tóku allan svitalyktareyði með sér á yfirborðið. Skammarlegt,. “ kvartar hann.

Valhopp og skíðasvig í hlíðunum

Cernan fær nú í fyrsta sinn ávæning af því hve víðfemt Taurus-Littrow-svæðið er þegar hann í þriðju og síðustu tunglferðinni hefur náð upp bratta hlíð. Hann tekur myndir af sjónarsviðinu og þegar hann smellir af stígur Schmitt beint inn á myndina í átt að miklu bjargi, svo Schmitt líkist helst dvergi. Þessi mynd verður síðar ein sú víðfrægasta úr Apollo-leiðöngrunum.

Frá þessum háa útsýnisstað getur Cernan séð vítt og breitt yfir á staði sem hann og Schmitt hafa sótt heim og það rennur upp fyrir honum að þrír dagar nægja ekki til að rannsaka alla þessa dali, gíga og fjöll. Engu að síður hafa þeir félagarnir verið nánast út um allt. „Jack, þegar við erum búnir höfum við farið yfir allan dalinn enda á milli,“ segir hann við félaga sinn. „Það var jú meiningin,“ hljóðar raunsætt svar Schmitts.

Síðustu stundirnar á tunglinu eru nýttar til hins ýtrasta og svo mikið að stjórnstöð telur sig knúna til að biðja geimfarana um að hægja á sér þar til púls þeirra hefur fallið. En fyrir utan þriggja daga amstur hafa Schmitt og Cernan samt sem áður tíma til að gantast: meðan Cernan valhoppar niður fjallshlíðina, þykist Schmitt skíðasviga. Samtímis því að hann hoppar og teygir út armana reynir hann að sveifla líkamanum til hliðanna í þröngum geimbúningnum, gersamlega laus við fágun. „Það er erfitt að ná góðri mjaðmasveiflu,“ kvartar hann.

Síðustu skrefin á tunglinu eru þung

Fyrir heimferðina hafa geimfararnir litla athöfn þar sem þeir afhjúpa minnisvarða fyrir framan myndavél. Undir mynd af jörðinni og miklu minna tungli er ritað: „Hér fullkomnaði manneskjan fyrstu rannsókn sína á tunglinu desember 1972 e.Kr. Megi sá friðarandi sem var með okkur í för endurspeglast í gjörvöllu lífi manna.“ Cernan snýr sér beint að áhorfendum og einkum hópi nemenda frá 70 löndum sem fylgjast með lokaferð Apollo frá Houston og segir: „Þetta er minnisvarði okkar sem mun vera hér þar til einhverjir okkar líkar, þar til einhverjir ykkar, sem eru von framtíðarinnar, snúa til baka til að lesa það aftur og halda þannig áfram rannsóknaráætlun Apollo.“

Meðan Schmitt slakar á og hlustar á félaga sinn finnur hann loks fyrir erfiði undanfarinna þriggja daga. Fingurnir eru helaumir og hann verkjar í skrokkinn, en áður en hann og Cernan geta notið afslöppunar á leiðinni heim ásamt Evans bíður þeirra enn eitt verkefni. Kassar með sýnishornum frá tunglinu og öðru góssi þurfa upp í tunglferjuna og þar tekur Schmitt á móti farminum, meðan Cernan stritar klyfjaður í sífellu upp og niður stigann.

Þegar sú vinna er yfirstaðin stendur Cernan lafmóður aleinn eftir á yfirborðinu í geimbúningi sem er hulinn gráu ryki. Hann býr sig undir að taka síðasta skref manneskjunnar á tunglinu en þrátt fyrir að þyngdaraflið sé veikt finnst honum hann vera sem negldur við yfirborðið. Hann horfir angurvær yfir nýkannað svæðið og þessu næst á jörðina sem stendur hátt á himninum. Síðan kveður hann með orðunum: „Ég er sannfærður um að sagan muni sýna að þessi áskorun Bandaríkjamanna í dag hafi mótað örlög manna morgundagsins. Við yfirgefum tunglið hér á Taurus-Littrow eins og við komum, og munum með guðs vilja snúa til baka með frið og von fyrir gjörvallt mannkyn. Góða ferð Apollo 17.“

Eftir heila 75 stunda dvöl á tunglinu, þar af 22 tíma í vettvangsrannsóknum og hafandi lagt að baki samtals 30,5 km skráir Apollo 17 sig í metabækur sem sá leiðangur sem hefur dvalið lengst á tunglinu og farið víðast. Og þegar geimfararnir skella samkvæmt áætlun niður í Kyrrahaf þann 19. desember 1972 færa þeir með sér næstum 115 kg af sýnishornum, stærsta bita af tunglinu til þessa.

Frá þessum sex tungllendingum voru flutt heim samtals 2.200 sýnishorn sem vógu samanlagt 382 kg. Þessi sýni, sem enn eru rannsökuð m.a. við Johnson Space Center í Texas, hafa m.a. afhjúpað að tunglið er viðlíka gamalt og jörðin – um 4,6 milljarðir ára. Út frá sýnishornunum hafa vísindamenn getað púslað saman sögu tunglsins án þess að finna einhlítt svar við því hvernig það myndaðist. Niðurstöðurnar styðja þó kenningu um að tunglið hafi orðið til við árekstur milli jarðar og plánetu á stærð við Mars.

Þakka má þeim speglum sem voru settir upp af geimförunum og notaðir til að endurvarpa leysigeisla frá jörðu aftur til baka, að tekist hefur að mæla nákvæmlega fjarlægð til jarðar og sýna að tunglið fjarlægist ár hvert jörðina um 3,8 sm.

Út frá þessu metnaðarfulla Apollo-verkefni hefur sprottið mikill fjöldi uppgötvana og uppfinninga sem hafa haft bein áhrif á hversdagslíf okkar: frostþurrkaður matur, eldvarin klæði, forritanlegir gangráðar og ekki síst rafrænar örflögur. Í þessum skilningi hefur Apollo einnig reynst ómetanlegt afrek.

Subtitle:
Í desember 1972 halda þrír menn af stað í síðustu ferð manna til þessa til tunglsins. Apollo 17. slær öll fyrri met. Geimfararnir eru á tunglinu í meira en þrjú dægur og safna í þremur löngum tunglferðum 115 kg af tunglgrýti. Mikilvægast af öllu er þó að í þetta sinn er fræðimaður, jarðfræðingurinn Harrison Schmitt, með í för.
Old ID:
879
695

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is