Þann 17. nóvember 1970 lenti rússneski tunglbíllinn Lunokhod 1 á tunglinu.
Þetta var fyrsta vitvélin sem send var til annars hnattar og þessi litli, sjálfvirki bíll ferðaðist um á tunglinu og tók þar myndir í heilt ár, áður en sambandið við hann rofnaði.
En sögu Lunokhods 1 reyndist ekki þar með lokið, því nú hefur hópi vísindamanna hjá Kaliforníuháskóla í San Diege tekist að finna hann.
Vísindamennirnir komu auga á bílinn þegar þeir grandskoðuðu myndir frá gervitunglinu Lunar Reconnaissance Orbiter sem er á braut um tunglið í lítilli hæð.
Þessi gamli tunglbíll getur nú komið vísindamönnunum til hjálpar. Á honum er nefnilega glitauga sem endurkastar ljósi nákvæmlega í beina stefnu til baka til ljósgjafans.
Vísindamennirnir beindu öflugum leysigeisla að tunglbílnum og þeim til mikillar ánægju speglaði glitaugað ljósinu til baka.
Fyrir hafa vísindamennirnir fjóra aðra ljósspegla, sem einnig urðu eftir á tunglinu fyrir um 40 árum. Með þessum leysigeislamælingum geta stjörnufræðingar aflað mikillar þekkingar á braut tunglsins um jörðina og aflað meiri vitneskju um innri samsetningu hnattarins.
Þessi fimmti spegill, sem nú hefur fundist, bætir talsverðu við upplýsingarnar frá hinum og einkum vonast vísindamennirnir til að Lunokhod 1 geti aukið skilning manna á hinum fljótandi kjarna tunglsins.
Nú verður hægt að gera nákvæmari mælingar á því hvernig yfirborðið „bungar út“ vegna aðdráttarafls jarðar, en af því má draga ályktanir um stærð og massa kjarnans.