Lifandi Saga

Grimmilegasta refsingin: Rómverjar drógu dauðann á langinn

Hver andardráttur kostaði óheyrilega kvöl og það gat tekið marga daga að deyja. Með krossfestingunni höfðu Rómverjar komið sér upp svo grimmúðlegri aðferð við aftökur að jafnvel valdsmennina sjálfa hryllti við. Jesús var síður en svo eina fórnarlambið.

BIRT: 23/10/2023

Sársaukaópin bergmála af virkisveggjum Jerúsalemborgar. Samfelld skelfingar- og neyðaróp stanslausra kvala berast frá krossum sem reistir hafa verið nánast á hverjum auðum fermetra í borginni.

 

Túlkurinn Flavius Josefus hefur aldrei séð neitt þessu líkt. Krossarnir skipta þúsundum og á hverjum einasta hangir einn samlanda hans og stynur við hvern andardrátt.

 

Fórnarlömbin reyndu að flýja frá Jerúsalem – hinni dauðadæmdu borg sem Rómverjar höfðu umkringt mánuðum saman. En rómversku málaliðarnir sýna enga miskunn.

 

„Á hverjum degi handtóku Rómverjar 500 gyðinga og oft fleiri,“ segir Josefus í lýsingu sinni á umsátrinu um Jerúsalem árið 70 e. Kr.

„Þeir krossfestu þá í mismunandi stellingum sér til skemmtunar.”
Flavius Josefus um aftökur Rómverja á gyðingum.

Knúðir áfram af hatri og biturð yfir stöðugum uppreisnum gyðinga, pynda rómversku hermennirnir fanga sína. Að pyndingunum loknum eru þeir negldir upp á trékrossa.

 

„Þeir krossfestu þá í mismunandi stellingum sér til skemmtunar. En á endanum var timbrið í krossana uppurið og ekki heldur pláss fyrir fleiri krossa, jafnvel þótt meira timbur hefði fengist,“ skrifar Josefus yfirkominn af ógninni.

 

Ímyndin er svo skelfileg að jafnvel rómverski hershöfðinginn Titus fyllist samúð með fórnarlömbunum. Engu að síður lætur hann hermenn sína halda áfram.

 

Titus gerir sér vonir um að íbúar Jerúsalem fyllist nægilegum ótta við að horfa upp á þennan skelfilega dauðdaga, til að gefast endanlega upp og ófriðnum ljúki.

 

Af öllum aftökuaðferðum Rómverja var krossfestingin sú kvalafyllsta. Rómverskir böðlar höfðu fullkomnað hvert smáatriði þannig að fórnarlambið liði mestu mögulegar þjáningar og auðmýkingu.

 

Svo grimmileg var þessi aðferð að öldum saman var bannað að beita henni við rómverska borgara.

 

Assýringar fyrstir

Krossfesting var reyndar ekki rómversk uppfinning. Að líkindum voru það Assýringar í Írak nútímans sem fyrstir krossfestu menn mörg hundruð árum fyrir stofnun Rómarborgar.

 

Á 14. öld f.Kr. höfðu Assýringar komið upp voldugu ríki en þeim til sárrar skapraunar gerðu undirokaðir þjóðflokkar hverja uppreisnina á fætur annarri.

 

Til að berja þá til hlýðni fundu Assýringar upp grimmilegustu refsingar fornaldarinnar. Meðal þeirra var sú aðferð að þræða granna stólpa upp í gegnum efri hluta líkamans og reisa stólpann síðan upp.

Assýringar voru meistarar í hrottalegum aftökuaðferðum. Í höll Tiglath-Pileser III konungs á 7. öld f.Kr. sést hvernig hermenn hans stungu spjótum í íbúa borga sem neituðu að gefast upp eða reyndu að koma af stað uppreisn.

Hugsanlegt að Assýringar hafi síðan þróað þessa aðferð áfram í þá krossfestingu sem nú er best þekkt.

 

Hvað sem til er í því, er svo mikið víst að næsta stórveldi á þessum slóðum, Persaveldi, beitti krossfestingu. Gríski sagnaritarinn Heródótos segir t.d. frá því hvernig Dareios 1. Persakonungur refsaði fyrir uppreisn í Babýlon um 594 f.Kr.

 

„Hann valdi nærri 3.000 af fyrirmönnum borgarinnar og lét krossfesta þá.“

 

Það er þó ekki fyllilega ljóst hvernig persneska krossfestingin fór fram. Líklegast þykir að handleggir fórnarlambanna hafi verið bundnir á krossinn þannig að fæturnir næðu ekki til jarðar.

 

Erkióvinir Persa í vestri voru Grikkir. Þeir litu á Persa sem villimenn og það kann að hafa valdið því að krossfesting náði ekki fótfestu sem aftökuaðferð meðal Grikkja.

„2.000 borgarar sem höfðu lifað af reiði makedónsku hermannanna, héngu nú negldir á krossa við veginn niður að ströndinni.“
Fornaldarheimild um refsingu hafnarborgarinnar Tyrus

Alexander mikli Makedóníukonungur hafði engar slíkar siðferðishömlur þegar hann lagði undir sig Persaveldi á fjórðu öld f.Kr. Hafnarborgin Tyrus í núverandi Líbanon stóðst umsátur hans mánuðum saman og eftir að Alexander náði borginni á sitt vald, hefndi hann sín grimmilega.

 

„2.000 borgarar sem höfðu lifað af reiði makedónsku hermannanna, héngu nú negldir á krossa við veginn niður að ströndinni,“ segir í fornaldarheimild.

 

Með Alexander mikla náði aðferðin útbreiðslu við Miðjarðarhaf og stórveldið í Norður-Afríku, Karþagó tók upp krossfestingar. Rómverjar komust í fyrsta sinn í kynni við krossfestingar þegar þeir áttu í átökum við Karþagómenn um yfirráð yfir Miðjarðarhafi á 2. öld f.Kr.

 

Eftir að hafa lagt Karþagó í eyði árið 146 f.Kr. héldu Rómverjar heim með galeiður sínar fullar af herfangi og sömuleiðis með kvalafyllstu aftökuaðferð fornaldar í farteskinu.

„Hann var hýddur þangað til sást í beinin.“
Flavius Josefus um hýðingar manns sem var dæmdur til krossfestingar.

Krossfestir áttu að þjást

Rómarveldi var í stöðugum vexti svipað og gilt hafði um eldri stórveldi. Og útþenslunni fylgdi líka hin stöðuga hætta á uppreisnum.

 

Rómverjar sáu þess vegna mikla möguleika í krossfestingum og þróuðu aðferðina þannig að hún yrði sem allra kvalafyllst og þar með líklegust til að bæla allar uppreisnarhugmyndir. Nú var hver þáttur vandlega úthugsaður.

 

Fyrsta skrefið á leið hins dauðadæmda var hýðing. Menn voru afklæddir og bundnir við staur og þar húðstrýktir með margóla svipum. Á ólarendunum voru blýlóð, málmflísar eða brot úr beinum.

 

Gyðingurinn Flavius Josefus, túlkur Rómverja, var viðstaddur þegar Rómverjar húðstrýktu bónda fyrir krossfestingu hans árið 62 e.Kr.

 

„Hann var hýddur þangað til sást í beinin.“

 

Með blóðið lagandi úr sárunum á bakinu var bjálki – patibulum – síðan reyrður við handleggi mannsins og þannig var hann látinn ganga til aftökustaðarins. Bjálkinn mun hafa verið allt að 57 kg að þyngd.

Til að auka á niðurlæginguna þurfti hinn dæmdi að bera bjálka krossins – patibulum – um göturnar á aftökustað.

 Rómverski leikritahöfundurinn Plautus lýsir slíkum atburði:

 

„Látið hann bera patibulum gegnum borgina og síðan festa hann á krossinn.“

 

Þessi hluti var mikilvægur þáttur vegna auðmýkingarinnar sem því fylgdi að ganga þannig útleikinn gegnum mannfjöldann á götunum.

 

Í skáldsögu gríska höfundarins Charitons sem líklega var skrifuð kringum upphaf tímatals okkar, lýsir hann því hvernig dauðadæmdir voru látnir ganga hlekkjaðir saman á hálsi og fótum.

 

„Hver bar sinn eigin kross. Böðlarnir nýttu þessa grimmd til að vekja ógn í brjóstum allra sem kynnu að hafa í hyggju að fremja sama glæp,“ skrifaði hann.

 

Og það var ekki fyrr en eftir þessa niðurlægingu sem sjálf krossfestingin hófst.

 

Dæmdir voru negldir á krossinn

Krossinn sjálfur gat verið nokkuð mismunandi en oftast mun hafa verið búið að setja meginstólpann upp. Þessi stólpi gat verið um 2,5 metrar á hæð.

 

Þegar hinn dæmdi var loks kominn alla leið voru hendur hans negldar fastar við þverbjálkann sem hann hafði sjálfur borið. Vísindamenn eru ekki sammála um hvort neglt hafi verið í gegnum lófa eða úlnlið.

Hinn dæmdi var negldur á krossinn með allt að 18 cm löngum nöglum. Þessi hér fannst í Ísrael.

Mögulega hefur hvort tveggja tíðkast. En hefði naglinn verið rekinn inn í miðjan lófann, myndi líkamsþunginn rífa höndina í sundur og sakamaðurinn þannig falla niður.

 

Væri naglinn hins vegar rekinn í gegn alveg uppi við úlnliðinn, hefði þyngdin ekki skapað neinn vanda. Þarna eru átta bein, fasttengd með liðböndum.

 

Svonefnd ölnartaug liggur niður handlegginn og þarna niður í höndina. Þetta er mikilvæg skyntaug og hugsanlega vissu Rómverjar að nagli á þessum stað veldur gríðarlegum sársauka.

 

Svipað gildir um úlnliðinn sjálfan því þar liggur miðtaugin.

 

Þegar armarnir höfðu þannig verið festir var þverbjálkinn hífður upp á stólpann með hinum dæmda og negldur fastur. Að því loknu voru fæturnir negldir fastir.

 

Vísindamenn telja að fæturnir hafi verið festir á hliðar stólpans með því að reka nagla í gegnum hælbeinið.

 

Í öðrum tilvikum hafa báðir fætur verið negldir framan á stólpann og naglar þá reknir milli ristarbeinanna. Þar eru líka taugar sem auka á sársaukann.

Stundum voru menn festir með nagla gegnum hælbeinið. Hér er neglt hælbein sem fannst í Jerúsalem.

Að sögn rómverska heimspekingsins Seneca skemmtu böðlarnir sér stundum með því að breyta stellingum.

 

„Sumir hengja fórnarlömbin með höfuðið niður, aðrir negla í gegnum kynfærin.“

 

En fyrir hina dauðadæmdu var þetta þó ekki það erfiðasta. Það var nefnilega öndunin.

 

Hægfara kæfing

Nútímatilraunir hafa sýnt að hinum krossfestu hefur verið erfiðast að anda frá sér. Við tilraunirnar voru sjálfboðaliðar hengdir upp á höndunum.

 

Innöndun reyndist engum vandkvæðum bundin. Mikilvægustu öndunarvöðvarnir eru í þindinni og hún dróst niður á eðlilegan hátt og dró þar með ferskt loft inn í lungun.

 

Lungun losa sig hins vegar við koltvísýring í útönduninni og það var erfiðara.

 

Nú þurfa öndunarvöðvar að þrýsta upp á við og draga lungun þannig saman. Tilraunirnar sýndu að til að virkja vöðvana þurfti þrýsting frá fótunum og um leið að draga úr þeirri þyngd sem hvíldi á handleggjunum.

 

Hverri útöndun hefur því fylgt ólýsanlegur sársauki. Tilraunirnar sýndu að eftir aðeins sex mínútur hafði öndunarhæfnin minnkað um 70% og blóðþrýstingur hafði lækkað um 50%. Þetta fór versnandi eftir því sem á leið.

Langt dauðastríð á krossinum

Rómverjar þróuðu krossfestinguna sem eins konar listform í grimmd. Tilgangurinn var að valda sem mestum sársauka allt fram í andlátið. Þessi þrautskipulagða aftaka gat tekið allt upp í fjóra daga. Hvert smáatriði var úthugsað.

1. Hýðing

Fyrir krossfestinguna var hinn dæmdi húðstrýktur og á svipunni voru brot úr málmum, beinum eða gleri sem rifu upp húðina og skárust inn í vöðva og bein.

2. Fastnegldar hendur

Fanginn var festur við þvertréð við úlnliðinn. Rómverjar vöruðust að negla í gegnum slagæðar. Naglarnir fóru þó nálægt taugum og það jók á sársaukann.

3. Fastnegldir fætur

Fæturnir voru festir við stólpann með nagla í gegnum ristina. Stundum negldu Rómverjar þó í gegnum hælbeinið og inn í hlið stólpans.

4. Sársaukafull öndun

Á krossinum var afar sársaukafullt að anda. Til að draga andann þurfti fanginn að nota útlimina til að hreyfa brjóstkassann. Hann þurfti því að pynta sjálfan sig til að ná andanum.

Innöndun

Þegar líkaminn sígur niður og hangir á handleggjunum þenst brjóstkassinn af sjálfu sér og lungun fyllast af lofti. Innöndunin var því ekki sársaukafull.

Útöndun

Til að anda frá sér þurfa vöðvarnir að pressa loft út úr lungunum. Það er ógerlegt þegar þunginn hvílir á handleggjunum. Fórnarlambið þurfti því að nota fæturna til að lyfta sér upp.

Langt dauðastríð á krossinum

Rómverjar þróuðu krossfestinguna sem eins konar listform í grimmd. Tilgangurinn var að valda sem mestum sársauka allt fram í andlátið. Þessi þrautskipulagða aftaka gat tekið allt upp í fjóra daga. Hvert smáatriði var úthugsað.

1. Hýðing

Fyrir krossfestinguna var hinn dæmdi húðstrýktur og á svipunni voru brot úr málmum, beinum eða gleri sem rifu upp húðina og skárust inn í vöðva og bein.

2. Fastnegldar hendur

Fanginn var festur við þvertréð við úlnliðinn. Rómverjar vöruðust að negla í gegnum slagæðar. Naglarnir fóru þó nálægt taugum og það jók á sársaukann.

3. Fastnegldir fætur

Fæturnir voru festir við stólpann með nagla í gegnum ristina. Stundum negldu Rómverjar þó í gegnum hælbeinið og inn í hlið stólpans.

4. Sársaukafull öndun

Á krossinum var afar sársaukafullt að anda. Til að draga andann þurfti fanginn að nota útlimina til að hreyfa brjóstkassann. Hann þurfti því að pynta sjálfan sig til að ná andanum.

Innöndun

Þegar líkaminn sígur niður og hangir á handleggjunum þenst brjóstkassinn af sjálfu sér og lungun fyllast af lofti. Innöndunin var því ekki sársaukafull.

Útöndun

Til að anda frá sér þurfa vöðvarnir að pressa loft út úr lungunum. Það er ógerlegt þegar þunginn hvílir á handleggjunum. Fórnarlambið þurfti því að nota fæturna til að lyfta sér upp.

Þegar menn dóu á krossinum eftir nokkra klukkutíma eða í sumum tilvikum nokkra daga, hefur dánarorsökin verið blanda af kæfingu og hjartabilun.

 

En þar til dauðastríðinu lauk var sársaukinn ofboðslegur og iðulega nenntu Rómverjar ekki að bíða svo lengi.

Sumir – hinir heppnu – fengu eins konar náðarhögg með hamri sem braut fótleggina.

 

Þá var ekki lengur unnt að lyfta líkamanum til að auðvelda öndunina og dauðans var skammt að bíða. Heimspekingurinn Seneca var þeirrar skoðunar að krossfesting væri versti mögulegi dauðdaginn.

 

„Einkum eftir barsmíðarnar sem veikluðu fórnarlambið þannig að það var dauðvona, afmyndað og bólgið, alþakið sárum á herðum og brjóstkassa og þurfti sífellt að berjast við að ná andanum,“ skrifaði hann.

 

Sálfræðihernaður

Sú ógn sem Seneca gerði að umtalsefni, fól einmitt í sér þau áhrif sem Rómverjar vildu ná fram, enda var markmið krossfestinganna umfram allt að skapa ótta. Þess vegna fóru þessar aftökur fram þar sem enginn gat komist hjá því að sjá hvað fram fór.

 

Þegar rómverski hershöfðinginn Marcus Crassus sigraði uppreisnarmanninn Spartacus og þrælaher hans árið 71 f.Kr. sá hann til þess að refsingarnar færu ekki fram hjá neinum.

Árið 71 f.Kr. lét rómverski hershöfðinginn Crassus krossfesta 6.000 þræla sem tekið höfðu þátt í blóðugri uppreisn Spartacusar.

„Aðeins 6.000 lifðu af og voru teknir til fanga. Þeir voru krossfestir meðfram veginum frá Róm til Capua,“ skrifaði rómverski sagnaritarinn Appianus.

 

Svo grimmileg þótti krossfestingin að engan rómverskan borgara mátti lífláta með þeim hætti. Krossfestingu sættu einungis þrælar, uppreisnarmenn, sjóræningjar og svikarar.

„Engu að síður lést þú hann líða þennan grimmilega og niðurlægjandi dauðdaga!“
Saksóknarinn Marcus Cicero við réttarhöld yfir Gajusi Verres.

Það olli miklu uppnámi árið 70 f.Kr. þegar upp komst að Gajus Verres, landstjóri á Sikiley, hafði látið krossfesta rómverskan borgara.

 

Verres var dreginn fyrir dóm og saksóknarinn var enginn annar en hinn frægi Cicero.

 

„Ekkert orð heyrðist af vörum þessa vesalings manns nema þetta eitt: „Ég er rómverskur ríkisborgari,“ þrumaði Cicero.

 

Þessi orð túlkaði hann þannig að upplýsingarnar um ríkisborgararéttinn myndu valda því að landstjórinn léti stöðva aftökuna.

 

„Engu að síður lést þú hann líða þennan grimmilega og niðurlægjandi dauðdaga!“ hrópaði Cicero sem fékk landstjórann dæmdan útlægan.

Margar útgáfur af krossi dauðans

Latneska orðið crux er yfirleitt þýtt sem kross en það er ekki endilega rétt þýðing því þetta aftökutól var ekki alltaf hefðbundinn kross, heldur var til í ýmsum myndum.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Krossfestu andstæðinga sína

Eftir fall lýðræðisins tóku hinir nýju keisarar að dæma menn á krossinn. Nú varð krossfesting refsing fyrir allt frá ofbeldisránum til fúkyrða í garð keisarafjölskyldunnar.

 

Áður hafði ríkt trúarlegt umburðarlyndi í Rómarveldi en á keisaratímanum var tekið að refsa meðlimum smærri trúarhópa með krossfestingu.

 

Þetta stafaði ekki síst af því að keisararnir vildu láta taka sjálfa sig í guðatölu.

 

Fólk sem ekki viðurkenndi guðdómleika keisarans mátti þola slíka refsingu.

 

Það gerðist m.a. í Alexandríu í Egyptalandi árið 38 e.Kr. þegar gyðingar þar neituðu að tilbiðja Calicula keisara sem guð. Rómverski landstjórinn krafðist hörðustu mögulegrar refsingar.

 

„Hann skipaði svo fyrir að menn skyldu krossfestir lifandi,“ skrifaði gyðingurinn og rithöfundurinn Filon yfirkominn af skelfingu.

 

Nokkrum árum áður hafði Pontíus Pílatus, landstjóri Rómverja í héraðinu Júdeu látið krossfesta fátækan smið fyrir að draga vald keisarans í efa.

Grimmilegustu refsingar Rómverja

Árið 70 f.Kr. lýsti rómverski lögspekingurinn Marcus Cicero krossfestingu sem verstu refsingu í Rómarveldi. En Rómverjar notuðu fleiri óhugnanlegar aftökuaðferðir.

Brenndir á báli

Crematio – að brenna á báli var sjaldgæf aftökuaðferð og varð ekki opinber aðferð í Róm fyrr en á keisaratímanum. Sagnfræðingar þekkja aðeins fá dæmi um þetta. Þó lét t.d. Neró keisari brenna kristna meðan þeir héngu á krossinum.

Kastað fyrir ljónin

Dauðadæmdir voru stundum látnir mæta ljónum eða öðrum villidýrum í hringleikahúsinu Colosseum og það var hluti af skemmtuninni. Heimildir herma að fjölmörgum kristnum hafi verið kastað fyrir ljónin.

Pokadauðinn

Ein sérkennilegasta refsingin var sú sem dæmd var þeim sem drepið höfðu foreldra sína. Fyrst var hinn seki húðstrýktur en síðan settur í poka ásamt slöngu, hana, apa og hundi. Pokanum var svo kastað í fljót.

Grafnar lifandi

Gyðjunni Vestu þjónuðu sex meyjar sem áttu að vera skírlífar. Ef Vestumeyja braut skírlífisheitið var sá sem hún hafði lagst með, húðstrýktur til bana. Vestumeyjan sjálf var lokuð inni í neðanjarðarbyrgi og látin svelta í hel. Með því móti gat Vesta ekki refsað neinum fyrir að taka hana af lífi.

Smiðurinn hét Jesús og á endanum voru það áhangendur kenninga hans sem bundu enda á þessa grimmúðlegustu aftökuaðferð Rómverja.

 

Þrátt fyrir harða andstöðu keisaraveldisins stækkuðu kristnir söfnuðir víða í ríkinu og þótt hver keisarinn á fætur öðrum léti krossfesta hina kristnu náðu þeir ekki að vinna bug á þessum trúarsöfnuði sem meira að segja hafði gert krossinn að trúartákni sínu.

 

Tæpum 300 árum eftir krossfestingu Jesú snerist Konstantín keisari til kristinnar trúar og sjö árum síðar bannaði hann krossfestingar.

 

Hengingar urðu í staðinn helsta aðferð kristinna valdhafa til að lífláta sakamenn.

LESTU MEIRA UM KROSSFESTINGU

F. Zugibe: The Crucifixion of Jesus: A Forensic Inquiry, M. Evans & Company, 2005

 

M. Hengel: Crucifixion: In the Ancient World and the Folly of the Cross, SCM Press, 2012

 

HÖFUNDUR: Benjamin Christensen , Niels-Peter Granzow Busch

© Mary Harrsch,© Shutterstock,© akg-Images/Ritzau Scanpix & Shutterstock,© Amir Cohen/Reuters/Ritzau Scanpix,lbum/Ritzau Scanpix & Shutterstock,© Giancarlo Costa/Bridgeman Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.