Vísindamenn hafa lengi velt fyrir sér hvort fiskar finni sársauka og um leið óbeint hvort þeir hafi aðrar tilfinningar.
Fiskar eru almennt ágætlega búnir skilningarvitum, sem gera þeim fært að skynja bæði efnasamsetningu og aðrar aðstæður í vatninu. Rétt eins og menn hafa þeir sjón, heyrn og bæði lyktar- og bragðskyn.
Að auki hafa þeir skilningarvit sem eru okkur alveg framandi, svo sem rák á hliðunum sem þeir nota til að skynja hreyfingu í vatninu og þeir hafa skynfæri til að finna rafstrauma. Öll þessi skilningarvit duga þó ekki til að fullyrða um tilfinningar þeirra. T.d. geta bakteríur líka skynjað skaðleg efni í umhverfinu og flutt sig burt frá þeim – en fæstir myndu þó tengja það við tilfinningar þar eð bakteríur hafa ekkert taugakerfi.
Í flestum tegundum fiska er heilinn (kvarnirnar) um 1% af líkamsþyngdinni, en heili manna er um 2,3% af þyngd. Sumir fiskar hafa stærra heilabú, t.d. ferskvatnsfiskur af ættkvíslinni Petrocephalus, en heili hans er um 3,1% af líkamsþyngd.
Í fiskabúri sýna þessir fiskar ýmis greindarmerki, sýna af sér atferli sem sumir líffræðingar líkja við ánægjublandinn leik. Slíkt atferli getur minnt á hegðun fiska sem virðast láta sér vel líka að vera klórað á maganum.
En við ættum að fara afar varlega í að ætla fiskum mannlegar tilfinningar, vegna þess hve gríðarlega fjarskyldir þeir eru.