Vísindamennirnir söfnuðu saman gögnum úr spurningalista sem sendur var til hartnær tvö þúsund manns á Stóra-Bretlandi og í Bandaríkjunum.
Helmingi fleiri hávaxnir svarendur sögðust hafa greinst með COVID-19 en við átti um lægri meðbræður þeirra og vísindamenn segja niðurstöðurnar gefa til kynna að veiran dreifist ekki einungis með snerti- og dropasmiti heldur berist hún jafnframt í lofti.
Ef raunin væri sú að veiran dreifðist einvörðungu með því að stórir, þungir dropar úr munni eða nefi lenda á gólfi eða jörðu sem einstaklingar svo komast í snertingu við, þá myndi líkamshæð engu máli skipta fyrir hættuna á að verða fyrir smiti. Ef á hinn bóginn örsmáar eindir svífa um langtímum saman í hærri loftlögum, þá verða niðurstöður vísindamannanna loks skiljanlegar.
„Fjarlægðarmörk skipta ennþá miklu máli, því dropasmit er staðreynd en hins vegar hafa niðurstöður okkar sýnt fram á að grímur geta verið jafn mikilvægt – ef ekki mikilvægara – vopn í baráttunni gegn smiti,“
segir Evan Kontopantelis, prófessor við Manchester háskóla.
Í nýliðnum júlímánuði undirrituðu 239 sérfræðingar um gjörvallan heim bréf, þar sem læknisfræðileg samtök voru hvött til að viðurkenna að kórónuveiran geti borist í lofti.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) vill ekki útiloka að smit geti borist innanhúss í troðfullu rými með slælegri loftræstingu en stofnunin auglýsir enn eftir frekari rannsóknum á þessu sviði áður en endanleg niðurstaða verður kunngjörð.
Rannsóknin sem gerð var við Manchester háskóla verður jafningjarýnd á næstu vikum.