Reyndar hefur kampavín bæði meiri og hraðari áhrif en önnur vín með sama áfengisinnihaldi. Þetta sönnuðu breskir læknar í tilraun árið 2003, þegar þeir létu 12 þátttakendur drekka hálfa flösku af kampavíni, ýmist freyðandi eða ekki freyðandi á 20 mínútum.
Áfengismagn í blóði jókst nokkru hraðar hjá þeim sem drukku freyðivínið, en það sem búið var að hræra alla kolsýru úr. Framan af samsvaraði munurinn um einu aukaglasi, en eftir 20 mínútur var áfengismagnið í blóði allra orðið hið sama. Læknarnir reyndu einnig að mæla hvernig áhrif áfengið hefði á þátttakendur og þar reyndist marktækur munur. Freyðandi kampavín lengdi viðbragðstíma mun meira en það sem ekki freyddi og sá munur hélst a.m.k. í klukkutíma. Freyðivínið gerði fólki líka erfiðara að handleika tölvumús og skynja hluti sem það sá.
Ekki er nákvæmlega vitað af hverju munurinn stafar en læknarnir halda þó að kolsýran í freyðivíninu hafi þau áhrif í þörmunum að áfengið nái hraðar út í blóðið.