Vísindamönnum hjá Harvardháskóla og Google hefur með aðstoð gervigreindar tekist að skapa stærsta þrívíddarmódel sögunnar af smásæju sýni úr heila konu, ásamt nákvæmnismyndum í hárri upplausn.
Vefsýnið var aðeins um einn rúmmillimetri, eða á stærð við hálft hrísgrjón en myndirnar sýndu að þar var að finna ekki færri en 57.000 frumur, 23 sm af æðum og 150 milljónir taugamóta, en þau mynda tengingar milli heilafrumna.
Jafnframt afhjúpuðu nýju myndirnar bæði margar óþekktar taugafrumur og sjaldséðar tengingar, segja vísindamennirnir í niðurstöðuskýrslu sinni sem birtist í vísindatímaritinu Science.
Mjög nákvæm mynd af heilanum
Heilasýnið var tekið úr 45 ára konu sem skorin var upp vegna flogaveiki.
Harvard-vísindamennirnir skáru sýnið í 5.000 sneiðar, sem hver um sig voru 34 nanómetrar að þykkt. Sneiðarnar voru svo myndaðar gegnum rafeindasmásjá.
Vísindamennirnir hjá Google byggðu síðan gervigreindarmódel sem gat sett sneiðarnar saman í þrívíddarmynd af þessum örsmáa hluta úr mannsheila. Þetta segja vísindamennirnir gera kleift að greina áður óþekkt smáatriði í byggingu heilans. Þetta kemur fram í Nature.
Nýjar tengingar kortlagðar
Meðal þess sem áður var óþekkt voru sjaldgæfar tengingar milli heilafrumna. Í langflestum tilvikum fundu vísindamennirnir eina tengingu milli tveggja frumna en í sumum tilvikum tvær.
Endurgerð á stöðum taugafrumna í vefjasýni úr heila konunnar byggt á gögnum úr rafeindasmásjármyndum. Taugafrumurnar eru litaðar eftir stærð þeirra.
En þarna fundust einnig frumur sem deildu 50 tengingum. Og til viðbótar fundust taugaþræðir sem höfðu brugðið hnút á sjálfa sig.
Myndirnar sýndu líka taugafrumur sem tvær og tvær voru alveg eins. Það einkenndi líka þessar frumur að skjóta taugaþráðum, sem bera boð inn í frumuna – líka nefndir griplur – til tveggja mismunandi átta.
Gríðarstórt gagnasafn
Þetta gríðarstóra gagnasafn er 1,4 petabæti eða 1.400 terabæti. Það er varðveitt hjá Google og er öllum opið. Vísindamennirnir hvetja aðra áhugasama vísindamenn til að skoða þessi gögn.