Heilsa

Delta-afbrigðið eykur hættuna á alvarlegum veikindum

Delta-afbrigðið smitar meira en önnur afbrigði kórónaveirunnar, auk þess að það er viðnámsþolnara gegn bólusetningu. Þá eykst hættan á sjúkrahúsinnlögnum að sama skapi um helming.

BIRT: 15/11/2021

Delta-afbrigðið og sjúkdómsferlið – Delta-afbrigðið og einkennin –  Delta-afbrigðið og bólusetningar – Delta-afbrigðið og hjarðónæmi

LESTÍMI: 9 MÍNÚTUR

 

Delta-afbrigðið ræður ríkjum á Íslandi

Smit af völdum delta-afbrigðisins, sem áður nefndist indverska afbrigðið, hefur náð hvað mestri útbreiðslu um allan heim og sú staðreynd kann að torvelda baráttuna við smitdreifingu.

 

Þegar delta-afbrigðið fyrst kom fram á nýliðnu sumri var þetta nýja afbrigði álitið vera allt að 50-64 prósent meira smitandi en hið svokallaða breska afbrigði, sem einnig gekk undir heitinu alfa-afbrigðið. Við þetta má svo bæta því að breska afbrigðið var sagt vera 50% meira smitandi en það afbrigði sem fyrst herjaði á okkur í mars 2020.

 

Ástæða þessarar auknu smithættu telja vísindamenn vera sérlega stökkbreytingu sem kallast R203M. Stökkbreytingin er álitin valda breytingum á prótíni í erfðamengi veirunnar, sem eykur getu hennar til að framleiða veiruagnir og sýkja frumur.

 

Delta-variant-sygdom

Staðreyndir um delta-afbrigðið

Heiti: Delta-afbrigði, indverska afbrigðið eða B.1.617.2.

 

Uppruni: Afbrigði þetta á rætur að rekja til Indlands og fór að dreifa sér í byrjun mars 2021.

 

Smithætta: 50-64 prósent meira smitandi en breska afbrigðið.

 

Önnur einkenni: Meira viðnám gagnvart bólusetningum og hefur í för með sér önnur einkenni en fyrri afbrigði.

Delta-plús – nýtt undirafbrigði dreifir sér

Haustið 2021 hafa alls verið skilgreind 56 ný undirafbrigði delta-veirunnar og vísindamenn og heilbrigðisstarfsfólk í Englandi fylgist sérlega grannt með einu þessara afbrigða.

 

Þetta nýja delta-afbrigði hefur hlotið heitið AY.4.2, en kallast einnig einfaldlega delta-plús.

 

Delta-plús einkennist af tveimur stökkbreytingum á svonefndu broddprótíni, þ.e. þeim hluta veirunnar sem festir sig við heilbrigðu frumurnar.

 

Vísindamenn álíta delta-plús hafa í för með sér allt að tíu hundraðshlutum meiri smithættu en hefðbundna delta-afbrigðið, sem ræður ríkjum í dag.

 

Delta-plús er farið að láta á sér kræla í ýmsum löndum og þess má t.d. geta að afbrigðisins hefur orðið vart í Danmörku. Þar greindist afbrigðið í fyrsta sinn í byrjun ágúst og síðan þá hafa nokkur hundruð manns smitast af þessu tiltekna afbrigði.

 

Hins vegar er ekkert sem gefur til kynna að delta-plús-afbrigðið hafi í för með sér önnur sjúkdómseinkenni en sjálft delta-afbrigðið.

 

DELTA-AFBRIGÐIÐ OG SJÚKDÓMSFERLIÐ

Delta-afbrigðið getur valdið alvarlegri veikindum

Rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu The Lancet gefur til kynna að hættan á þörf fyrir sjúkrahúsinnlögn meðal þeirra smituðu sé meiri af delta-afbrigðinu en af fyrri afbrigðum.

 

Í Skotlandi hafa vísindamenn greint gögn alls 5,4 milljón einstaklinga og í ljós kom að nýja afbrigðið tvöfaldar hættuna á sjúkrahúsinnlögn.

 

Skýrslur sjúkrahúsa víðs vegar um heim sýna sömu niðurstöður.

 

Læknar í stórborginni Guangzhou í Kína segja allt að 12% smitaðra hafa veikst heiftarlega fyrstu þrjá til fjóra dagana. Áður en delta-afbrigðið fyrst leit dagsins ljós átti þetta við um 2-3%.

 

Læknarnir hafa jafnframt upplýst að veirumagnið í líkömum hinna smituðu aukist hraðar en þegar um smit af völdum annarra afbrigða er að ræða. Veirumagnið minnkar að sama skapi einnig hægar.

 

Í Bandaríkjunum hafa mörg börn verið lögð inn á sjúkrahús eftir að delta-afbrigðið fór að breiðast út. Vísindamenn leggja engu að síður áherslu á að enn sé of snemmt að spá fyrir um hvort börnin veikjast verr en raunin var þegar fyrri afbrigði réðu ríkjum.

 

DELTA-AFBRIGÐIÐ OG EINKENNI

Delta-afbrigðið hefur í för með sér önnur einkenni

Breskir sjúklingar tilkynna um önnur einkenni af völdum delta-afbrigðisins.

 

Algengustu einkenni kórónaveirunnar hafa lengst af verið þessi:

– Hiti

– Þurr hósti

– Þreyta

– Minna eða ekkert bragð- og lyktarskyn

 

Hins vegar eru algengustu einkenni nýja delta-afbrigðisins sögð vera:

– Hiti

– Veikindatilfinning

– Vöðvaeymsli

– Nefrennsli

– Höfuðverkur

– Hálseymsli

 

Nefrennslið vekur sérstaka eftirtekt því það taldist ekki til einkenna eldri afbrigða kórónaveirunnar.

 

Einkenni delta-afbrigðisins geta einnig haft það í för með sér að smitið getur minnt á slæmt árstíðabundið kvef hjá þeim sem ekki veikjast alvarlega.

 

Fyrir vikið hvetja læknar fólk til að fara í sýnatöku ef það fær kvefeinkenni.

 

Þannig stökkbreytist kórónaveiran

Erfðaskrið einkennist af smávægilegum náttúrulegum stökkbreytingum í veirunni sem smám saman þróast yfir í nýtt afbrigði og ruglar ónæmiskerfið. Erfðaskrið er t.d. ástæða þess að sumir lenda í því að fá flensu oftar en einu sinni sama veturinn.

Veira ryðst inn í frumuna

Veiruögn nær fótfestu í frumum líkamans. Veiran ber með sér svonefndan RNA-kóðastreng inn í frumuna.

Kóðinn yfirtekur frumuna

RNA-kóðinn yfirtekur frumukjarnann og notar hann sem fyrirmynd að nýjum veiruafritum.

Villa verður í afritun

Þegar afritunin á sér stað geta öðru hverju átt sér stað mistök í afrituninni, svokallaðar stökkbreytingar, sem gætu breytt getu nýju frumunnar til að ryðja sér leið inn í frumur.

DELTA-AFBRIGÐIÐ OG BÓLUSETNINGAR

Delta-afbrigðið hefur meira viðnámsþol gagnvart bólusetningum 

Rannsóknir hafa leitt í ljós að bóluefni gegn kórónaveirunni hrífur ekki jafn vel þegar delta-afbrigðið á í hlut  og það gerði á önnur afbrigði veirunnar.

 

Þetta þýðir að fólk sem aðeins hefur fengið fyrri bólusetningu af tveimur á frekar á hættu að sýkjast af delta-afbrigðinu en við átti um þá sem komust í tæri við eldri afbrigði veirunnar.

 

Þá geta þeir sem teljast vera fullbólusettir jafnframt sýkst af völdum delta-afbrigðisins, en reyndar fá þeir þá gjarnan mjög væg einkenni eða jafnvel engin. Langstærstur hluti þeirra sem lagðir eru inn á sjúkrahús eftir að hafa smitast af delta-afbrigðinu eru óbólusettir.

 

Hér að neðan er að finna gögn úr rannsóknum sem gerðar voru á áhrifum ólíkra bóluefna á delta-afbrigðið.

 

Pfizer/BioNTech-bóluefnið og delta-afbrigðið

 

Ensk rannsókn leiddi í ljós að bólusetning með bóluefninu frá Pfizer/BioNTech veitir 33% vörn gegn delta-afbrigðinu þremur vikum eftir fyrri skammtinn. Þegar tíðnin var skoðuð í tengslum við breska afbrigði veirunnar, reyndist bóluefnið veita alls 50% vörn.

 

Tveimur vikum eftir seinni skammtinn kom hins vegar í ljós að bóluefnið frá Pfizer/BioNTech veitti umtalsvert betri vörn gegn delta-afbrigðinu. Sú rannsókn hefur hins vegar ekki verið ritrýnd þegar þetta er skrifað.

 

Nýjustu tölur frá Ísrael, þar sem stór hluti þjóðarinnar var bólusettur með bóluefni frá Pfizer/BioNTech, gefa jafnframt til kynna að bóluefnið hrífi slælegar gegn delta-afbrigðinu en því breska. Í Ísrael er vörnin eftir tvo skammta sögð nema 64%.

 

Þetta táknar að bóluefnið kemur ekki alveg í veg fyrir að fólk sýkist, en upplýsingar gefa til kynna að það veiti góða vörn gegn alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús, auk þess sem fólk látist síður en ella.

 

Ísraelsku gögnin eru þó birt með þeim fyrirvara að gögnum hafi einungis verið safnað yfir stutt tímabil og að niðurstöðurnar séu ekki aðgengilegar heilbrigðisyfirvöldum annars staðar.

 

Lítil kanadísk rannsókn, sem enn ekki hefur verið ritrýnd, gefur hins vegar jákvæðari mynd af vörn bóluefnisins frá Pfizer/BioNTech gegn delta-afbrigðinu, en þær niðurstöður leiða í ljós að bóluefnið veiti alls 57% vörn eftir fyrri skammtinn og 87% eftir þann síðari.

 

Moderna-bóluefnið og delta-afbrigðið

 

Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins Moderna halda því fram að bóluefni þeirra veiti einnig vörn gegn delta-afbrigðinu. Þessi niðurstaða fékkst í kjölfarið á rannsókn sem Moderna lét gera á blóði úr bólusettum einstaklingum þar sem í ljós kom að vörnin minnkaði aðeins „eilítið þegar delta-afbrigðið átti í hlut miðað við eldri afbrigðin“. Rannsókn Moderna bíður þess að verða ritrýnd.

 

Bandarísk rannsókn, sem jafnframt á eftir að ritrýna, sýndi sömu tilhneigingu og sú rannsókn valdi Moderna sem það bóluefni sem mesta vörn veitti gegn delta-afbrigðinu. Alls voru 50.000 þátttakendur í rannsókninni, sem leiddi í ljós að bóluefnið frá Moderna veiti 76% vörn gegn sýkingu. Í sömu rannsókn veittu tveir skammtar af bóluefninu frá Pfizer einungis 46% vörn gegn sýkingu.

 

Ef marka má niðurstöður kanadískrar rannsóknar kallar bóluefnið frá Moderna almennt fram sterkari viðbrögð ónæmiskerfisins en bóluefnið frá Pfizer, einkum þegar aldraðir einstaklingar eiga í hlut. Kanadíska rannsóknin bíður þess enn fremur að verða ritrýnd.

 

AstraZeneca-bóluefnið og delta-afbrigðið

 

Enska rannsóknin, sem fyrr var sagt frá, leiddi sem sé í ljós að bóluefnið frá Pfizer/BioNTech hreif verr gagnvart delta-afbrigðinu en því breska, hvort heldur eftir fyrri eða síðari skammtinn, og sömu sögu er að segja af bóluefninu frá AstraZeneca, en margir Englendingar hafa einmitt verið bólusettir með því bóluefni.

 

Niðurstöður á rannsóknum á bóluefninu frá AstraZeneca leiddu í ljós 33% vörn gagnvart delta-afbrigðinu þremur vikum eftir fyrri skammtinn. Tveimur vikum eftir seinni skammtinn hafði vörnin þó aukist til muna, án þess þó að verða eins góð og vörnin af bóluefninu frá Pfizer/BioNTech.

 

Bóluefnið frá Jansen (Johnson & Johnson) og delta-afbrigðið

 

Johnson & Johnson hafa einnig stundað rannsóknir á virkni bóluefnis þeirra gegn delta-afbrigðinu og ef marka má niðurstöðurnar, sem enn ekki hafa verið ritrýndar, virðist bóluefni þeirra veita góð vörn.

 

Þeir halda því meira að segja fram að bóluefni þeirra hrífi betur gegn delta-afbrigðinu en við átti um suðurafríska afbrigðið.

 

DELTA-AFBRIGÐIÐ OG HJARÐÓNÆMI

Delta-afbrigðið bregður fæti fyrir hjarðónæmi

Þar sem bóluefnin nægja ekki til að koma í veg fyrir smit af völdum delta-afbrigðisins er hætt við að kórónuveirusmit haldi áfram að herja á okkur.

 

Ýmsir vísindamenn, þeirra á meðal Sir Andrew Pollard, prófessor við bólusetningardeild Oxfordháskólans, telja að erfitt muni reynast að mynda hjarðónæmi gegn kórónaveirunni.

 

„Bólusettir einstaklingar munu áfram smitast af delta-afbrigðinu. Þetta táknar að allir sem sem eru óbólusettir eigi eftir að komast í tæri við veiruna og að við höfum ekki yfir neinu að ráða sem getur alveg komið í veg fyrir smit“, segir Sir Andrew Pollard.

 

Hjarðónæmi fæst þegar stór hluti íbúanna er orðinn ónæmur fyrir smiti af völdum sýkingarsjúkdóms og þeir geta fyrir vikið ekki borið sjúkdóminn áfram til þeirra íbúa sem ekki hafa myndað ónæmi.

 

Hversu stór hluti íbúanna þarf að vera ónæmur ræðst af sjúkdóminum sem um ræðir.

 

 

Birt: 15.11.2021

 

 

CHARLOTTE KJAER

 

 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is