Hve marga menn missti Napóleon í Rússlandi?
Þann 24. júní hélt Napóleon yfir prússneska landamærafljótið Njemen sem var upphafið á örlagaríkum herleiðangri hans inn í Rússland.
Í för með honum voru meira en 400.000 hermenn og stefnan var sett á Moskvu til þess að þvinga rússneska keisarann til að samþykkja viðskiptabann gegn erkióvini Frakklands, Stóra-Bretlandi.
Eftir mikla orrustu nærri Moskvu náði Napóleon loks að hertaka höfuðborg Rússa um miðjan september.
Þá hafði meira en 1.000 km löng ganga og margir bardagar tekið sinn toll og taldi herinn nú um 100.000 manns sem voru staddir í brunarústum yfirgefinnar borgar án vista.
Þar beið Napóleon árangurslaust í fimm vikur eftir samninganefnd keisarans, áður en hann skipaði her sínum að halda heimleiðis.
Á undanhaldinu varð herinn fyrir sífelldum skæruárásum Rússa og þegar vetur gekk í garð voru nær allar vistir hermanna á þrotum.
Þetta varð til þess að flestir hermenn Napóleons dóu úr hungri, sjúkdómum og kulda og skæruhernaði.
Af meira en 400.000 hermönnum sem tóku þátt í innrásinni í Rússland hálfu ári áður, komust aðeins um 10.000 lifandi frá þessum hildarleik.