Á yfirborði dvergplánetunnar Plútós er að finna 1.600 km breitt svæði sem er þakið köfnunarefnisís og hefur valdið vísindamönnum heilabrotum síðan það uppgötvaðist árið 2015.
Þá flaug NASA-geimfarið New Horizons fram hjá þessum litla íshnetti og myndirnar sem bárust til jarðar komu að sumu leyti á óvart.
Þarna uppgötvuðu stjörnufræðingar stóra, hjartalaga sléttu sem var áberandi bjartleit í samanburði við örum þakið yfirborðið í kring.
Svæðið hefur fengið heitið Tombaugh Regio til heiðurs bandaríska stjörnufræðingnum Clyde Tombaugh sem uppgötvaði Plútó árið 1930, en lést árið 1997.
Þessi sérkennilega slétta hefur bæði vakið aðdáun og valdið heilabrotum.
Árekstur við himinhnött
En nú telja vísindamenn hjá Bernháskóla í Sviss sig hafa fundið skýringuna og hún felst í næsta voveiflegum atburði langt aftur í forsögu dvergplánetunnar.
Stjörnufræðingarnir keyrðu ýmis tölvulíkön til að komast að því hvernig íshellan Sputnik Planitia hefði myndast, en hún myndar vesturhluta Tombaugh Regio-sléttunnar. Líkönin sýndu mestar líkur á því að Plútó hefði orðið fyrir árekstri við himinhnött, sem verið hefði um 700 km í þvermál.
Listræn lýsing á því hvernig hinn hægi, skáhalli árekstur hins 700 kílómetra breiða hnattar gæti hafa litið út.
Þetta er reyndar alls ekki í fyrsta sinn sem uppruni sléttunnar er rakinn til árkekstrar, en svissnesku vísindamennirnir munu vera hinir fyrstu sem tekist hefur að lýsa atburðinum sjálfum og reikna út stærð þess himinhnattar sem skildi eftir sig þessi ummerki á yfirborði Plútós.
Tölvulíkönin sýndu að árekstrarhnötturinn hefur skollið skáhallt niður á Plútó og þess vegna skilið eftir sig hina aflöngu sléttu Sputnik Planitia.
Þetta svæði er um 1.200 sinnum 2.000 kílómetrar að stærð og myndar lægð í yfirborð Plútós, en vísindamennirnir telja að dýpri dæld hafi flótlega eftir árekstur að mestu fyllst af kílómetraþykkum ís.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Nature Astronomy.