Nú eru 55% meiri líkur á mikilli ókyrrð í lofti í flugferð yfir Atlantshafið en fyrir 40 árum.
Þetta sýnir ný skýrsla og vísindamennirnir sem unnu hana, segja hækkandi hitastig á hnettinum valda þessum auknu óþægindum farþega.
Ósýnileg ókyrrð geisar yfir Atlantshafi
Vísindamenn hjá Readingháskóla í Englandi hafa farið vandlega yfir veðurupplýsingar frá árunum 1979-2020 og komist að þeirri niðurstöðu að ókyrrð í skýru lofti hafi aukist í takt við hnattræna hlýnun.
Þessi sérstaka „ókyrrð í skýru lofti“ kallast svo einmitt vegna veðurskilyrða sem eru mannsauganu ósýnileg en valda skyndivindhviðum og svonefndum loftgötum.
Ókyrrð í skýru lofti ríkir nú á hverjum handahófsvöldum stað yfir Atlantshafi næstum 27,5 klukkutíma á ári að meðaltali. Það er 55% lengri tími en þeir 17,7 tímar sem giltu 1979, samkvæmt skýrslunni.
Kort rannsakenda um hvar hættan á loftóróa hefur aukist mest. Því meira sem kortið er rautt, því meiri hætta hefur aukist á mikilli ókyrrð.
Hlýnun jarðar gerir vindinn óstöðugan
Ókyrrð í skýru lofti verður þegar vindur breytir skyndilega um átt og hraða.
Og hnattræn hlýnun veldur því að vindar verða mun oftar óútreiknanlegir. Veðrahvolfið hefur hlýnað en heiðhvolfið hefur kólnað nálægt pólunum. Hitamunur þessara loftlaga veldur tíðari vindhviðum og flugferðin verður því ójafnari.
Nýja loftslagsofurhetjan: Átta fróðleiksmolar um Power to X
Svonefnd Power to X tækni er í hraðri þróun og vekur vonir um að unnt verði að geyma vind- og sólarorku þar til hana þarf að nota. Slík ofurhetjutækni gæti fólgið í sér lykilinn að því að losna loksins við koltvísýring, helsta loftslagsskúrkinn.
Nýja skýrslan sýnir líka að hættan á skyndilegri ókyrrð í skýru lofti hefur aukist mest yfir Atlantshafi og Bandaríkjunum – eða einmitt á fjölförnustu flugleiðunum.
Almennt gætir fyrirbrigðisins meira á norðurhveli en ástæðuna þekki vísindamennirnir ekki enn. Þeir telja sig hins vegar geta fullyrt að ókyrrð í skýru lofti muni verða enn algengari ef hitastig á hnettinum heldur áfram að hækka.