Enskir vísindamenn kynnu að hafa uppgötvað ódýra en áhrifaríka leið til að draga úr ofbeldi: góðan og hollan mat, ásamt vítamínum og fæðubótarefnum.
Sálfræðingurinn Bernard Gesch sýndi þegar árið 2002 fram á að fæðubótarefni, svo sem B-vítamín, omega-3-fitusýrur úr fiski og steinefni, geta dregið úr ofbeldi meðal ungra afbrotamanna um allt að 40%. Nú hefur Gesch hrint úr vör þriggja ára metnaðarfullu verkefni þar sem 1.000 fangar í þeim þremur bresku fangelsum þar sem mest ber á ofbeldi fá daglega fæðubótarefni og vítamín. Samanburðarhópur fær lyfleysu í staðinn og með margvíslegum prófunum vonast Gesch til að afhjúpa samhengið milli ójafnvægis ýmissa lífefna og atferlis fanganna.
Gesch leggur áherslu á að ofbeldið eigi sér fleiri orsakir en ranga fæðu, en hann telur þessar rannsóknir geta markað mikilsvert skref í þá átt að draga úr afbrotum með mannúðlegri hætti og til lengri tíma litið geti þær haft þýðingu fyrir samfélagið í heild og t.d. bætt námsárangur barna.