Lifandi Saga

Hryðjuverk nasista í New Jersey: Feiknarleg sprenging vakti BNA

Á fjórða áratug liðinnar aldar voru þúsundir nasista í BNA að undirbúa blóðuga byltingu. En þegar lögmanni nokkrum tókst að lauma sér inn í raðir þeirra lagði enginn ráðamaður trúnað á frásögn hans – allt þar til púðurverksmiðja ein í New Jersey sprakk í loft upp.

BIRT: 11/06/2024

Rúður húsa í margra kílómetra fjarlægð splundrast þegar feiknarlegar sprengingar verða í púðurverksmiðjunni Hercules Powder Plant í Kenvil, New Jersey. Þessar sprengingar þann 12. september 1940 gjöreyðileggja tug bygginga á verksmiðjulóðinni.

 

Alls farast 52 – en öllu verra er að yfirvöld höfðu fyrirfram verið vöruð við um að viðlíka hryðjuverk væri mögulega yfirvofandi.

 

Í október árinu áður bar lögmaðurinn og njósnameistarinn Leon Lewis vitni fyrir „Óamerísku nefnd“ öldungadeildarinnar í Washington og greindi henni frá störfum sínum sem sjálfskipaður rannsakandi á neðanjarðarstarfsemi nasista í BNA. Meðal annars hafði einn útsendari hans þefað uppi vísbendingar um að bandarískir nasistar hygðust eyðileggja Hercules-verksmiðjuna.

 

Orð hans höfðu engin áhrif, þvert á móti var mörgum þingmönnum nokkuð skemmt við að hlusta á þessa viðvörun Lewis.

 

Á þessum tíma var eiginlega litið á bandaríska nasista sem meinlausa kjána. Eftir sprenginguna í Hercules-verksmiðjunni vakna þó yfirvöld við vondan draum og hefja markvisst eftirlit með einhverjum 25.000 áhangendum Hitlers í BNA.

 

Hér færðu innsýn í skemmdarverk nasista í Bandaríkjunum – og tilraunir til að afnema bandarískt lýðræði.

 

Lewis fékk sér njósnara 

Hitler hafði vart tekið við stjórnartaumunum í Berlín fyrr en nasískur áróður dúkkaði upp í stórborgum í BNA. Vorið 1933 tók lögreglustjórinn í Los Angeles á móti skýrslu um að hópur manna sem bar nafnið „Hinir nýju vinir Þýskalands“ stæði að baki dreifingu á „umtalsverðu magni“ af nasískum áróðursritum.

 

Hitler dró heldur ekki neina dul á að hann vildi að BNA fengi með tímanum nasísk stjórnvöld og að útsendurum hans og áhangendum í ríkjunum bæri að nýta sér áróður, ofbeldi og hermdarverk til að ná því markmiði: 

 

„Þegar það ríkir alger glundroði í samfélaginu og eftir að okkur hefur tekist að grafa undan trú bandarísks almennings á eigin stjórnvöldum, þá mun nýr hópur verðugra manna taka við. Þetta munu vera hinir þýsk-bandarísku og við verðum að hjálpa þeim að ná völdum“, sagði Hitler.

Bandarískir nasistar marseruðu reglulega í Siegfried-búðunum svokölluðu, sem staðsettar voru á Long Island í New York.

Í Kaliforníu bjó gyðingurinn Leon Lewis sem var lögmaður og hann las í dagblaði um þessa „nýju vini Þýskalands“ sem í júlí árið 1933 héldu fyrsta opinbera fund sinn í Los Angeles. Þangað stormuðu meðlimir íklæddir brúnum skyrtum í anda brúnstakkanna í SA-sveit Hitlers. Á fundinum voru Bandaríkjamenn hvattir til að berjast gegn tveimur helstu óvinum Bandaríkjanna: Kommúnistum og gyðingum. 

 

„Ég sé glöggt hvert þetta stefnir“ andvarpaði hinn 44 ára gamli lögmaður Leon Lewis. Á þessari stund ákvað hann að gera allt hvað hann gæti til að stöðva framgang nasismans í BNA.

 

Sem betur fer var Lewis ákaflega hæfur til þeirra verka. Í fyrri heimsstyrjöldinni hafði hann þjónað í bandaríska hernum við njósnadeild á vesturvígstöðvunum.

 

Hann hafði því samband við fjóra vini sína úr hernum og taldi þá á að lauma sér inn í flokk nasista í Los Angeles og gefa Lewis síðan skýrslu. Njósnahringur Lewis var nú kominn til starfa. 

 

Blá augu og ljóst hár veita aðgang

Njósnarar Lewis höfðu til að bera nokkuð sem hann sjálfan skorti til þessara starfa: Blá augu og ljóst hár. En með arískt útlit og reynslu í hernum var ekki örðugt fyrir útsendara Lewis að hljóta aðgang í þessum öfgahægrisinnuðu hópum.

Nasistar kölluðu lögmanninn Leon Lewis „hættulegasta gyðinginn í Los Angeles“.

Einn njósnari hans, John Schmidt, hafði ofan í kaupið stundað nám við þýskan liðsforingjaskóla, áður en hann flutti til Bandaríkjanna og talaði því með þýskum hreim.

 

Þegar Schmidt tók að stunda bókabúð í Kaliforníu sem seldi nasískar bækur og tímarit flykktust hægrisinnaðir Bandaríkjamenn um hann.

 

Þeir hvöttu hann að finna fleiri nýliða til að efla samtökin. Brátt var Lewis kominn með njósnara í innsta hring samtaka eins og hjá hinum „nýju vinum Þýskalands“ og „Silfurstökkunum“ en báðir stefndu að því að koma á nasískri stjórn.

 

Nánast á degi hverjum komust agentar Lewis að nýjum og uggvænlegum fyrirætlunum nasista. Háttsettur nasisti að nafni Hans Winterhalder greindi John Schmidt frá því að „innan tíðar munu nasistar beina vopnum sínum að gyðingum“ og „eyðileggja núverandi stjórnarhætti í þessu landi“. 

 

Fyrir þessa vopnuðu baráttu ráðgerði hópurinn að mynda herflokka af fyrrum hermönnum sem aðhylltust einnig nasisma. Auk þess höfðu samtökin þegar náð á sitt band fjölmörgum stjórnmálamönnum.

 

Njósnarar Lewis sáu ennfremur hvernig lögreglumenn Kaliforníu dreifðu út efni um nasísku samtökin „Silfurstakkana“, jafnvel meðan þeir sjálfir voru íklæddir einkennisbúningum lögreglunnar. 

 

Lewis taldi að nú þyrfti að bregðast skjótt við þannig að njósnaforinginn sneri sér til yfirvalda en þar talaði hann fyrir daufum eyrum.

 

Haustið 1933 leitaði hann næst til lögreglustjórans í Los Angeles. Lewis hafði meðferðis lista yfir nöfn á hættulegum meðlimum en lögreglustjórinn sýndi þessum áhyggjum hans engan áhuga:

 

„Þú skilur þetta ekki. Hitler er að reyna að leysa vandann sem fylgir gyðingum í Þýskalandi. Raunverulega ógnin stafar ekki frá fasistum og nasistum, heldur kommúnistum“ sagði lögreglustjórinn hastur.

 

Þegar Lewis leitaði að endum á náðir fógetans í Los Angeles var sá fundur jafn árangurslaus. Sá reyndist nefnilega vera góður vinur konsúls nasista Þýskalands á vesturströndinni og varpaði lögmanninum umsvifalaust á dyr. En Lewis neitaði að leggja árar í bát. 

 

Charlie Chaplin skal myrtur

Eftir því sem ofbeldi hægriöfgamanna jókst þegar fram leið á fjórða áratuginn fengu Lewis og njósnarar hans meira en nóg að gera. Njósnahringur hans taldi árið 1937 heila 13 njósnara og einn þeirra fékk veður af áætlun um tilræði þar sem í hlut áttu „Silfurstakkarnir“ og „Hinir nýju vinir Þýskalands“. Síðarnefndu samtökin höfðu ári áður tekið upp nafnið German American Boond (GAB) og töldu nú einhverja 25.000 meðlimi. 

 

Í samstarfi við hinn breska uppgjafarhermanninn og leikarann Leopold MacLagen sem hataði gyðinga hugðust þeir drepa 24 þekkta gyðinga í Hollywood. Frægasti leikari heimsins Charlie Chaplins var á þessum lista. 

 

Morðin áttu samkvæmt MacLagen að „skapa hættulegar róstur um heim allan“ og jafnframt hafa þau áhrif að gyðingar myndu unnvörpum flýja BNA. Þegar gyðingarnir væru síðan á leiðinni frá meginlandinu hugðist hann sjálfur og nokkrir meðreinasveinar hans „ná valdi á gufuskipunum, sprengja þau með dýnamíti og losna þannig við allt þetta bölvaða pakk í eitt skipti fyrir öll“.

 

Einn útsendara Lewis var viðstaddur þegar þessi áform voru rædd og nú loksins brugðust yfirvöld við, þegar þau meðtóku loks viðvörun um tilræðin. Kannski vegna þess að líf hins vinsæla Chaplins var í hættu.

 

MacLagen var handtekinn og dæmdur í fimm ára fangelsi sem hann gat þó sloppið við með því að yfirgefa BNA. Refsing Bretans fólst þannig aðeins í ferðalagi yfir Atlantshaf meðan bandarískir nasistafélagar hans sluppu við ákærur. 

 

Þessi lausatök yfirvalda hvöttu nasista BNA til frekari ódæða. Ráðabrugg þeirra um að bylta lýðræðinu og koma á nasískri stjórn urðu sífellt veigameiri. Þannig gat Lewis í apríl 1938 sagt lögreglunni í San Diego að Ku Klux Klan-meðlimurinn Henry Allen væri að brugga samsæri með valdamiklum meðlimum Silfurstakkanna.

Nasistar hleyptu BNA í bál og brand

Þrátt fyrir að enginn hafi verið dæmdur fyrir tilræðin stóð hópur nasískra og fasískra Bandaríkjamanna að baki margra sprenginga í BNA sumarið og haustið 1940.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Lögreglan handtók því Allen sem þá var í miðju kafi við að skipuleggja svokallaða „Snjóhríðaraðgerð“. 

Sú gekk út á að varpa dreifiritum með textum eins og „Drepið gyðingana!“ úr turni í borgarhverfi þar sem gyðingar voru fjölmennir.

 

Í geymslu hins handtekna fundu lögreglumenn – rétt eins og útsendari Lewis hafði sagt fyrir um – skjöl sem sönnuðu að Allen og kumpánar hans fyrirhuguðu byltingu gegn ríkisstjórn Roosevelt árið 1940. 

 

Byltingarmennirnir hugðust koma á stofn miklum fjölda af vopnuðum hópum 13 manna víðsvegar í BNA. Að kosningum loknum áttu þessir hópar að storma út á göturnar og hrinda af stað mikilli ofbeldisöldu. Ofbeldinu var ætlað að skapa ringulreið meðal þjóðarinnar og þá ætluðu forkólfarnir að hrifsa til sín völdin. 

 

Fyrstu viðbrögð FBI voru að bíða átekta. Allen var þannig aðeins ákærður fyrir ólöglega vopnaeign, þar sem hann hafði við handtökuna verið með stóra kylfu en samkvæmt honum var hún sérstaklega gerð til að drepa gyðinga. 

William Pelley (1890-1965) sagði skammvinna dauðareynslu sína hafa gert sér kleift að m.a. svífa frjáls um í loftinu.

Pelley vildi verða Hitler BNA

Það var enginn annar en sjálfur Guð sem hafði fyrirskipað William Pelley að umbylta bandarísku lýðræði. Eftir því sem höfundurinn sjálfur ritaði.

 

William Pelley starfaði sem handritshöfundur í kvikmyndaveri en hann varð víðfrægur í BNA árið 1928 þegar vikublað birti grein hans: „Sjö mínútur í eilífðinni“. Dulspeki var í hávegum höfð á þessum tíma og frásögnin af því hvernig hann sjálfur hefði risið upp frá dauðum vakti slíka athygli að tímaritið lét prenta annað upplag sem taldi heilar tvær milljónir eintaka. Í greininni staðhæfði Pelley að Guð og Jesús hefðu falið honum að taka völdin í BNA, meðan hann sjálfur lá dauður í heilar sjö mínútur.

 

Eftir hrunið á Wall Street árið 1929 skall á efnahagskreppa í BNA og Pelley varpaði sökinni alfarið á Gyðinga og umsvif þeirra í bönkum. Eftir valdatöku Hitlers 1933 kom hann á laggirnar sinni eigin SA-sveit hrotta sem hann nefndi „The Silver Shirt Legion“ – Silfurstakkarnir.

 

Í ræðu og riti krafðist Pelley þess að Gyðingar yrðu sviptir embættum sínum, hald lagt á eigur þeirra og þeim meinað að gegna opinberum embættum – rétt eins og í Þýskalandi nasista. Árið 1937 fullyrti hann jafnframt að tíminn væri upp runninn fyrir „bandarískan Hitler“. Sá átti að vera hann sjálfur.

 

Pelley reyndi einnig að sameina allar nasískar hreyfingar en þær hugmyndir hrundu til grunna þegar Bandaríkjamenn stigu inn í átök síðari heimsstyrjaldarinnar. Árið 1942 var hann dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir að hvetja til valdaráns og uppreisnar gegn alríkisstjórninni.

Sprenging vekur yfirvöld

Þrátt fyrir að Lewis og njósnarar hans hafi um sjö ára skeið veitt yfirvöldum ýmiskonar mikilvægar upplýsingar um rannsóknir sínar hafði lögreglan og FBI einungis hlustað á þá með öðru eyranu og öfgasinnarnir fengið furðulega milda meðferð í réttarkerfinu.

 

En allt breyttist þetta þann 12. september þegar púðurverksmiðjan Hercules Powder Plant sprakk í loft upp, rétt eins og Lewis og útsendari hans, Neil Ness, höfðu varað við. Formaður „Óamerísku nefndarinnar“, Martin Diez, viðurkenndi síðar ansi skömmustulegur: 

 

„Allir hlógu þegar maður að nafni Ness greindi nefnd okkar frá þessu ráðabruggi fyrir ári síðan. Þegar púðurverksmiðjan sprakk gerðist nákvæmlega það sem hann hafði sagt fyrir um“. 

 

Loksins vöknuðu bandarísk yfirvöld við vondan draum og sprengingin varð til þess að fleiri treystu nú á upplýsingar frá Lewis. Hjá FBI voru Leon Lewis og einn njósnari hans, Joseph Rouse, jafnvel skilgreindir sem „trúverðuglegir heimildamenn númer 21 og 22“.

John Rogge gaf út óritskoðaða skýrslu sína um spillta pólitíkusa árið 1961.  

Forsetinn þaggaði málið niður

Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk fann lögmaðurinn O. John Rogge fleiri skjöl sem sýndu að margir bandarískir pólitíkusar höfðu þegið mútur frá þýskum útsendurum. En hann hefði betur látið það ógert.

 

Þegar 27 pólitíkusar voru ákærðir árið 1944 fyrir að vera í vasanum á nasískum útsendurum féll málið niður vegna hatrammrar andstöðu stjórnmálamanna og andláts eins dómara.

 

Vorið 1946 ferðaðist lögmaðurinn O. John Rogge til Þýskalands til að afla frekari sönnunargagna. Rogge átti m.a. viðtal við fyrrum utanríkisráðherrann von Ribbentrop og fékk ennfremur aðgang að 30.000 þýskum skjölum.

 

Rannsókn Rogge endaði með skýrslu sem sýndi skýr sönnunargögn um að minnst 24 háttsettir bandarískir stjórnmálamenn hefðu átt í nánum tengslum við nasísk yfirvöld í Þýskalandi. En forseti BNA, Harry Truman, vildi ekki láta taka upp málið á ný.

 

Hann áleit skýrslu Rogge vera allt of eldfima og lét stimpla hana sem leynilegt skjal. Þegar upplýsingum um innihald hennar var síðar lekið til Washington Post, mögulega af hinum vonsvikna Rogge og lögmaðurinn sjálfur tjáði sig um rannsókn sína var hann rekinn úr starfi.

 

Samt sem áður hafði skýrslan miklar afleiðingar fyrir stjórnmálamennina 24: Lekinn varð til þess að enginn þeirra – þar með talinn einn helsti ráðgjafi Trumans til margra ára, öldungadeildarþingmaðurinn Burton Wheeler – hlaut endurkosningu.

Þegar Japanar vörpuðu síðan sprengjum á Pearl Harbor í desember 1941 og Þýskaland lýsti yfir stríði á hendur BNA nokkrum dögum síðar reyndist skjalasafn Lewis vera sannkölluð gullnáma.

 

Þar fundu yfirvöld margvíslegar upplýsingar um hvað þyrfti að aðhafast til þess að berjast gegn þeim Bandaríkjamönnum sem aðhylltust nasisma.

 

Með þessa vitneskju í farteskinu tókst yfirvöldum nú að fangelsa fjölmarga bandaríska nasistaleiðtoga, fyrir bæði litlar og stórar sakir. Þannig voru þeir ákærðir fyrir m.a. njósnir, skattsvik og undirróðursstarfsemi geng alríkisstjórninni. Auk þess voru 11.000 þýskir ríkisborgarar í BNA hnepptir í varðhald.

 

Alþýða manna snerist nú í auknum mæli gegn bandarískum nasistum eftir því sem bandaríski herinn sendi sífellt fleiri hermenn til Evrópu til að berjast gegn Hitler og nasismanum. 

LESTU MEIRA UM NASISTA Í BANDARÍKJUNUM

Steven Ross: Hitler in Los Angeles – How Jews foiled Nazi plots against Hollywood and America, Bloomsbury, 2017. 

 

John Roy Carlson: Under Cover – my four years in the nazi underworld of America – the amazing revelation of how axis agents and our enemies within are now plotting to destroy the United Stateshttps://archive.org/details/undercover0000unse/page/n1/mode/2up.

HÖFUNDUR: Troels Ussing , Jannik Petersen

© FBI/Wikimedia Commons,© scalar.usc.edu,© Bettmann/Getty Images,© biblio.sg/book/official-german-report,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Bólusótt: Ósýnilegur ógnvaldur herjaði í Evrópu

Maðurinn

Hvers vegna eru sumir smámæltir?

Spurningar og svör

Hvort er bjór betri úr dós eða flösku?

Lifandi Saga

Þýsk fórnarlömb sprengjuflugmanna tóku þá af lífi

Alheimurinn

Fær það virkilega staðist að tvær sólir geti verið í sama sólkerfi?

Náttúran

Hvernig geta slöngur klifrað?

Alheimurinn

Vetrarbrautin full af svartholum

Maðurinn

Hve lengi er hægt að vera kvefaður?

Maðurinn

Við drekkum einn bolla af nefslími dag hvern

Tækni

Hvað gerist ef díselolíu er dælt á bifreið sem knúin er bensíni?

Jörðin

Undravert yfirborð jarðar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.