Hundruð glitrandi blárra stjarna, umvafðar glóandi heitum gasþokum. Þetta er það sem blasir við í stórri stjörnuverksmiðju, sem kallast R136, þegar skoðaðar eru nýjar og afar nákvæmar myndir frá geimsjónaukanum Hubble.
R136 er að finna í svonefndri 30 Doradus-þoku sem er hluti af Stóra Magellan-skýinu en það er lítil stjörnuþoka á braut um Vetrarbrautina og í um 180.000 ljósára fjarlægð. Þessar bláu stjörnur, sem helst minna á demanta, eru aðeins fáeinna milljóna ára gamlar og meðal þyngstu stjarna sem um getur – allt að 100 sinnum efnismeiri en sólin. Í Vetrarbrautinni eru fáar svo ungar og þungar stjörnur. Svo skarpar eru myndir Hubble-sjónaukans að gerlegt er að greina stjörnurnar hverja frá annarri og það veitir vísindamönnum dýrmætar upplýsingar um mismunandi þróunarstig þessara stjarna.