Enginn veit nákvæmlega hvað tími er, en það hefur þó ekki neina afgerandi þýðingu í raunveruleikanum. Í eðlisfræði er tími ákveðin grundvallarstærð og notaður til að lýsa lengd ákveðins atviks eða hvenær það hefur orðið. Eðlisfræðingar geta mælt tíma og notað hann til útreikninga og meira að segja útskýrt að tíminn líði hægar í geimskipi sem nálgast ljóshraða. Tíminn er sem sagt stærð sem notuð er í fjölmörgum jöfnum.
Í afstæðiskenningunni er tími ein hinna fjögurra vídda sem saman mynda svonefndan rúmtíma. Hinar víddirnar eru hæð, lengd og breidd. Séu þessar víddir settar í samhengi við tíma er unnt að tala um flatt eða sveigt rými og gera ýmiskonar útreikninga. En þrátt fyrir þetta eru vísindamennirnir engu nær um það hvað tíminn raunverulega er. Eðlisfræðingar skilja vandamál með því að lýsa því í jöfnuformi og framkvæma síðan útreikninga sem koma heim og saman við tilraunir á rannsóknastofu. Og það er einmitt þannig sem þeir nýta sér tímahugtakið.