Lyktarsölt innihalda hjartarsalt sem hefur örvandi áhrif.
Efni þetta var þekkt á tímum Rómverja en sagnfræðingurinn Plíníus eldri nefnir í ritum sínum Hammoniacus sal sem er sérleg tegund af salti frá svæði þar sem nú er Líbýa.
Efnið var einnig notað af gullgerðarmönnum miðalda sem höfðu sjálfir lært að framleiða það.
Þeir notuðu efnið m.a. til að skapa „stein hinna vitru“ en efnið var fyrst og fremst notað ásamt náttúrulitum til að mynda með ný og skærari litbrigði.
Það var ekki fyrr en í Englandi á 19. öld sem hjartarsalt varð þekkt sem lækningaefni.
Sérhver enskur herramaður gekk með lyktarsölt á sér á 19. öld.
Breskar konur höfðu það fyrir sið að fá aðsvif þegar þær komust í uppnám og Bretar höfðu áttað sig á að unnt væri að vekja nánast hvern sem er með því að halda lyktarsöltum undir nefi þeirra.
Sannir herramenn gengu fyrir vikið ætíð með á sér litríkt ílát með lyktarsöltum sem leyst höfðu verið upp í vellyktandi, ediki og vínanda sem hægt var að taka fram ef einhver frúin skyndilega hneig niður í gólfið.
Í dag er hjartarsalt einkum notað af íþróttafólki á sviði hnefaleika, amerísks fótbolta og lyftinga, því örvandi áhrifin gera það að verkum að allur líkaminn bregst við. Margir læknar hafa þó varað við því að óhófleg notkun sé skaðleg.
Þannig virka lyktarsölt:
- Sterkar ammóníakgufur úr lyktarsaltinu erta slímhimnur í nefi og lungum.
- Lyktin virkjar viðbrögð sem koma vöðvunum á hreyfingu.
- Þá er taugakerfið jafnframt virkjað en þannig eykst hjartslátturinn og blóðþrýstingur hækkar.