Það er ekki hægt að segja að þessir litir séu beinlínis litir náttúrunnar. „Náttúran“ er afar vítt hugtak og bláan lit má t.d. víða finna. Bláan lit má bæði sjá á himni og hafi og ýmis blóm eru blá að lit. Fuglar geta líka verið með bláar fjaðrir í fiðurskrúði sínu.
Öllu nær lagi væri að tala um rautt, brúnt, gult og grænt sem algengustu plöntuliti. Frumuveggir plantna eru að mestum hluta úr sellulósa og trjáefninu lígníni. Þessi efni veita plöntunum stífni og styrk en brotna ekki auðveldlega niður. Lauf sem fallið hefur af tré liggur á jörðinni, dökkt eða rauðbrúnt á lit af því að það drekkur í sig mikið af sólarljósinu. Að sumri til er græni liturinn yfirgnæfandi í plönturíkinu. Það stafar af því að blöðin drekka einkum í sig orku úr hinum bláa og rauða hluta litrófsins en endurkasta grænu ljósi. Á haustin fá fallandi lauf á sig rauðan og gulan lit, vegna þess að hin grænu ljóstillífunarefni brotna niður og um leið tekur laufið að endurvarpa öðrum litum.
Mörg dýr nota einkennandi, sterkan lit á húð, feldi eða fiðri, t.d. til að þekkja hvert annað eða til að verjast óvinum með því að senda honum boð um að þau séu hættuleg. Einkum gildir það í umhverfi þar sem margar tegundir lifa í þéttu nábýli, svo sem í regnskógi eða við kóralrif. Þar má iðulega sjá ótrúlegan fjölda lita og litbrigða. Það fer sem sé talsvert eftir því hvar maður er staddur, hvaða litir það eru sem helst einkenna náttúruna.