Allar dýrategundir reyna að eignast sem flest lífvænleg afkvæmi. Yfirleitt er það fæðuframboð og rými sem setur því takmörk hve mörgum afkvæmum er unnt að koma á legg. Tegundirnar hafa tekist á við slík vandamál með mismunandi leiðum til að fjölga sér.
Sumar tegundir verja aðeins skömmum tíma og lítilli orku í uppeldi og geta því eignast hlutfallslega fleiri afkvæmi. Fórnarkostnaðurinn við þessa aðferð er sá að ungarnir eru illa undirbúnir fyrir lífsbaráttuna og margir týna því lífi.
Það gildir t.d. um margar tegundir fiska að megnið af ungviðinu kemst aldrei til þroska. En fjöldi hrognanna getur orðið ótrúlegur. Líklega er svonefndur tunglfiskur, sem orðið getur 2 tonn að þyngd, frjósamasta skepnan, enda hrognin allt að 300 milljónir, en af þessum mikla fjölda ná aðeins fá afkvæmi fullorðinsaldri.
Önnur dýr annast ungviðið betur og ná fyrir bragðið ekki að eignast jafnmörg afkvæmi. Spendýr annast afkvæmi sín best. Þau taka út mikinn hluta frumþroskans í móðurkviði og eftir fæðingu eru þau lengi í gæslu annars eða beggja foreldra. Einkum eru það spendýr sem lifa flóknu félagslífi, t.d. simpansar eða fílar, sem annast afkvæmin lengi. Flókin félagstilvera krefst mikils náms og því hafa þessi dýr einnig stóran heila.