Forsetakosningarnar í Líberíu í Vestur-Afríku árið 1927 eru taldar þær allra spilltustu í sögunni, samkvæmt heimsmetabók Guinness.
Þegar Líberíumenn gengu að kjörborðinu stóð valið á milli hins sitjandi forseta Charles D. B. King, fulltrúa True Whig-flokksins og andstæðings hans, Thomas J. R. Faulkner frá Þjóðarflokknum.
Eftir að öll atkvæðin höfðu verið talin, stóð Charles D. B. King uppi sem sigurvegari með stórsigur upp á heil 96,23 prósent allra greiddra atkvæða.
Stuttu eftir að úrslit kosninganna voru kynnt mótmælti stjórnarandstaða Alþýðuflokksins hins vegar harðlega vegna þessara niðurstaða.
Alþýðuflokkurinn hafði mikið til síns máls, því að á meðan fjöldi skráðra kjósenda í Líberíu var 15.000 sýndu opinber skjöl að King forseti hafði fengið um 230.000 atkvæði á móti 9.000 atkvæðum Faulkners.
Opinbera niðurstaðan sýndi það sem sagt að kosningaþátttaka var hvorki meira né minna en 1.590 prósent.
Charles D. B. King (fyrir miðju) árið 1927. Hann stendur þarna við hlið fjölskyldumeðlima og pólitískra stuðningsmanna.
Forsetinn neitaði staðfastlega öllum ásökunum um kosningasvindl.
Faulkner kallaði kosningarnar farsa og sakaði samstarfsfólk King um að hóta kjósendum og hagræða atkvæðaseðlum til að vinna kosningarnar.
Alþjóðlegir eftirlitsmenn lýstu einnig yfir áhyggjum af lögmæti kosninganna en King vísaði allri gagnrýni á bug og hélt því fram að kosningarnar hefðu verið frjálsar og lýðræðislegar.
Hinn þekkti mælskusnillingur Marcus Tullius Cicero gaf kost á sér sem ræðismaður í Róm árið 64 f.Kr. Bróðir hans, Quintus, samdi ritið „Handbók um kosningabaráttu“ honum til halds og trausts.
Stjórnarandstaðan sakaði King einnig um að taka þátt í að stuðla að nauðungarvinnu og þrælaviðskiptum sem varð til þess að Þjóðabandalagið – forveri Sameinuðu þjóðanna – hóf rannsókn á þessum ásökunum.
Rannsóknin leiddi í ljós að ríkisstjórn King hafði neytt ótal ættbálka á staðnum til að vinna að verkefnum ríkisins eins og vegagerð við aðstæður sem ekki væri hægt að lýsa öðruvísi en sem þrælahaldi. Afhjúpun þessi varð sérstaklega umdeild í Líberíu þar sem landið hafði upphaflega verið stofnað af frelsuðum þrælum frá Bandaríkjunum.
Hneykslismálið sem fylgdi í kjölfarið varð til þess að forsetinn neyddist til að segja af sér embætti árið 1930.
Kosningasvindl veitti einræðisherrunum völd
Kosningar gefa íbúum tækifæri til að tjá vilja sinn og velja sér sinn lýðræðislega kosna leiðtoga – í orði. Í raun og veru hefur mikill fjöldi ólýðræðislegra stjórnmálaflokka beitt vafasömum aðferðum og svikum til að grafa undan kosningum.
Argentína (1931)
Eftir valdarán hersins árið 1930 tók José Félix Uriburu hershöfðingi völdin og kom á herstjórn. Árið eftir ákvað Uriburu að halda „frjálsar“ kosningar til að lögfesta vald sitt. En stærsta flokki landsins, Unión Cívica Radical, var bannað að taka þátt og leiðtogar hans sendir í fangelsi. Aðeins stuðningsmenn herstjórnarinnar fengu að vera á kjörseðlinum.
Rúmenía (1946)
Kosningarnar árið 1946 áttu að marka jákvæð umskipti Rúmeníu yfir í lýðræði en voru þess í stað flekkaðar umfangsmiklum svikum og prettum – skipulögðum af rúmenska kommúnistaflokknum með aðstoð Sovétríkjanna. Til dæmis voru stjórnarandstöðuflokkar beittir hótunum, ofbeldi og handtökum í stórum stíl. Kosningarnar enduðu svo með yfirgnæfandi sigri kommúnista.
Filippseyjar (1986)
Árið 1986 hafði einræðisherrann Ferdinand Marcos stjórnað Filippseyjum í meira en 20 ár – með miklu ofbeldi, niðurbælingu allrar andspyrnu, hótana og handtöku andstæðinga sinna sem tryggðu að hann vann allar kosningarnar. Í kosningunum 1986 lýsti yfirkjörstjórn landsins því einnig yfir að Marcos hefði sigrað. En í þetta sinn voru íbúarnir búnir að fá miklu meira en nóg og Marcos neyddist að segja af sér eftir víðtæk og gríðarleg mótmæli.