Hlébarðinn er það dýr sem á síðari tímum hefur drepið mest af fólki til að éta.
Tegundin er útbreidd víðast hvar í suðaustanverðri Asíu og víða í Afríku en þeir hlébarðar sem ráðast á fólk sér til matar eru flestir á Indlandi og í Nepal.
Tölur frá indverska héraðinu Uttarakhand sýna t.d. að hlébarðar drápu að meðaltali 30 manns á ári á tímabilinu 2000-2008.
Það er þó miklu minna en 100 árum fyrr.
Samkvæmt breskum tölum um Indland urðu að minnsta kosti 11.909 þessum blettóttu kattardýrum að bráð frá 1875 til 1912. Það samsvarar 322 á ári eða nærri því einum á dag.
Hlébarðar sækjast eftir mannakjöti
Á sínum tíma var álitið að einn stakur hlébarði, nefndur hlébarðinn frá Pamar, hafi banað um 400 manns. Þetta var í upphafi 20. aldar.
Þetta mikla mannfall varð til þess að margir veiðimenn vildu umfram allt fella hlébarða. Frægastur þeirra var Jim Corbett sem einbeitti sér að hlébörðum sem sóttust eftir mannakjöti á Indlandi og skaut einmitt þennan fræga hlébarða frá Pamar árið 1910.
Stór rándýr leggjast á fólk
Tígurinn frá Chapawat, Nepal/Indland
- 436 dráp.
Krókódíllinn Gústaf, Búrúndí
- 300 dráp
Mannæturnar frá Tsavo (tvö ljón), Kenya
- 135 dráp
Ófreskjan frá Gévaudan (úlfur eða hýena), Frakkland
- 113 dráp
Corbett áleit að hlébarðar sem hefðu á annað borð bragðað mannakjöt, sæktust eftir því áfram.
Maðurinn hættulegt fórnarlamb
Hlébarði er á stærð við fullvaxinn mann. Karldýrin geta orðið um 90 kg en kvendýrin um 55 kg.
Í samanburði við aðra stóra ketti er hlébarðinn sem sagt fremur smávaxinn en hann bætir sér upp smæðina með því að læðast að bráðinni og ráðast beint á hálsinn.
Hlébarðinn fer þó ekki undantekningarlaust með sigur af hólmi. Indversk kona, Kamla Devi, varð fyrir árás hlébarða árið 2014. Svo vildi til að hún hélt á skóflu og barðist við hlébarðann í um hálftíma og tókst á endanum að bana dýrinu.