Hæsta fjallið sem þekkist í sólkerfinu er eldfjallið Olympus Mons á Mars sem telur heila 21,2 km. Á Mars er einnig að finna eldfjöllin Ascraeus Mons (18,2 km), Arsia Mons (17,8 km) og Pavonis Mons (14,0 km). Það er engin hending að öll þessi gríðarmiklu eldfjöll er að finna á Mars. Mars er nefnilega lítil reikistjarna með þyngdarafl sem nemur þriðjungi jarðar. Þetta litla þyngdarafl gerir háum fjöllum kleift að standa án þess að sökkva niður undan eigin þyngd. Hins vegar er hið sterka þyngdarafl jarðar ástæða þess að hæsta fjall okkar, Mount Everest, er aðeins 8,85 km.
Á Mars eru engar meginlandsrekplötur eins og á jörðu þar sem yfirborðið á Mars er ein stór plata. Það á sinn þátt í að mynda þessi risafjöll þegar heit kvika streymir upp úr iðrum plánetunnar. Kvikan þrýstist í gegnum yfirborðið og streymir út svo hún myndar fjall þegar kvikan storknar. Á Mars getur yfirborðið ekki flust til og því stækkar fjallið einungis. Á óralöngum tíma hefur reikistjarnan því myndað fjölmörg ofureldfjöll.
Sambærilegt fyrirbæri má sjá hér á jörðu á svonefndum heitum reitum en einn þekktasti þeirra hefur myndað eyjaklasann Hawaii. Þar streymir kvika upp frá hafsbotni undir Kyrrahafinu. Þar sem Kyrrahafsplatan hreyfist yfir „heita reitinn“ eru takmörk fyrir því hve stór eldfjöllin á Hawaii geta orðið. Hins vegar myndast heil keðja af eldfjallaeyjum eftir því sem Kyrrahafsplatan fer hjá.
Hið eldvirka tungl Júpíters, Íó, hvers þyngdarafl er einungis sjöundi hluti jarðar ætti að hafa enn hærri fjöll en Mars. Ástæðan fyrir því að sú er ekki raunin stafar af því að árlega þekur sentímetra þykkt öskulag tunglið – það verður að einum kílómetra á 100.000 árum. Þyngd öskulagsins er svo mikil að stórir hlutar yfirborðsins sökkva niður og þrýsta þannig öðrum blokkum upp.