Í mannsheilanum eru um 100 milljarðar taugafrumna sem hver um sig getur tengst þúsundum annarra taugafrumna. Í heilanum eru þannig a.m.k. 100.000 milljarðar tengipunkta milli heilafrumna.
Tengipunktunum sem reyndar kallast taugamót, má líkja við smára (transistora) á tölvuflögu. Taugamótin eru þó þróaðri þar eð þau geta verið breytileg að stærð og þar með rúmað fleiri gildi en bara 0 og 1 eins og gildir um tölvurnar.
Geta heilans tífaldast
Árið 2016 uppgötvaði hópur vísindamanna hjá Salk-stofnuninni í BNA að taugamót geta sveiflast milli 26 stærðarstiga.
Á grundvelli þessarar þekkingar reiknuðu vísindamennirnir út að geta heilans væri um tífalt meiri en talið hafði verið og heilinn hafi þar af leiðandi rými fyrir eitt petabæti eða milljón gígabæti.
Vísindamennirnir töldu að þetta gagnamagn samsvaraði um það bil öllu Internetinu á þeim tíma. Slíkur samanburður er þó ekki raunhæfur vegna þess að það er ógerlegt að finna ákveðna tölu fyrir það gagnamagn sem Internetið varðveitir.
1.000.000 gígabæti rúmar mannsheilinn. Það samsvarar minnisrými í 4.000 snjallsímum.
Það er hins vegar raunhæft að bera getu heilans saman við minnisgetu snjallsíma. Nýjustu gerðirnar hafa nú pláss fyrir allt að einu terabæti en í langflestum símum er minni smærra, oft 256 gígabæti. Það þarf þá um 4.000 snjallsíma til að ná sömu getu og mannsheilinn.