Rafsígarettur eða hið svokallaða veip vinnur stöðugt á sem hollari valkostur en hefðbundið tóbak.
Öfugt við venjulegar sígarettur verða veipgufurnar ekki til við bruna krabbameinsvaldandi efna. Engu að síður vara margir vísindamenn og sömuleiðis heilbrigðisyfirvöld við slíkri innöndun.
Þótt veipið sé ekki jafn skaðlegt og tóbaksreykur, er það ekki jafn skaðlaust og t.d. gufan í gufubaði. Það skiptir verulegu máli að í veipvökvanum eru efni á borð við nikótín, leysiefni og ýmis viðbótarefni. Í gufubaði andar fólk einungis að sér vatnsgufu.
Lungnavefurinn veikist
Við hitun mynda sum veipefnin heilsuspillandi úða, svo sem formaldehýð, acetaldehýð og acrolín. Þessi efni virka ertandi á lungnavefinn.
Í öndunarfærunum eru bifhár sem fjarlægja skaðleg efni og örverur. Heitt og rakt loft hefur jákvæð áhrif á bifhárin en nikótíngufur veipsins hafa skaðleg áhrif á þau og minnka hæfni þeirra til að losa öndunarfærin við efniseindir og örverur.
Skannanir hafa sýnt að veiparar hafa meiri bólgur í lungunum en bæði fólk sem reykir sígarettur og reykir alls ekki.
Veipið er þó enn tiltölulega nýtt fyrirbæri og vísindamenn hafa því enn ekki heilsteypta þekkingu á áhrifum þess á heilsufarið.
Bandarísk rannsókn hefur leitt í ljós hvernig gufur frá rafsígarettum geta haft hættuleg áhrif á lungun.
Gufur skemma lungun
- Skaðleg efni myndast: Veip myndar heilsuskaðandi efni, svo sem formaldehýð, acetaldehýð og acrolín.
- Bifhárum fækkar: Nikótíngufur veikla bifhár í öndunarvegi og þau glata hæfni til að fjarlægja skaðlegar efniseindir og örverur.
- Stíflur í öndunarveg: Nikótíngufur þykkja slím í öndunarvegi og gera það límkenndara. Það eykur hættu á sýkingum.
- Bólgur í lungunum: PET-skannanir sýna að veiparar hafa meiri bólgur í lungunum en fólk sem reykir.