Sagnfræðingar hafa til þessa talið að norðuramerískir sléttuindíánar hafi ekki farið að ríða hestum fyrr en eftir 1680 þegar indíánar í Nýju-Mexíkó hafi rekið spænsku landnemana á brott og komist yfir hross þeirra.
Nýleg rannsókn hefur hins vegar leitt í ljós að þeir innfæddu voru farnir að ríða hrossum sínum meira en hálfri öld áður, þ.e. áratugum áður en fyrstu evrópsku landnemarnir stigu fæti á sléttuna.
Rannsóknin hófst á því að hópur vísindamanna frá 15 ólíkum löndum rannsökuðu 33 hrossabeinagrindur sem fundist höfðu innan um aðrar fornminjar hér og þar í Bandaríkjunum og sem vitað er fyrir víst að hafa tilheyrt hinum ýmsu indíánaþjóðflokkum.
Beinin voru síðan rannsökuð með m.a. geislakolsaldursgreiningu og erfðarannsóknum til að ákvarða aldur og uppruna beinanna og leiddu niðurstöðurnar í ljós að tveir hestanna hefðu lifað í upphafi 17. aldar.
Hesturinn fór fljótt að gegna einkar mikilvægu hlutverki í menningu indíánanna eftir að þeir komust í kynni við hross á 17. öld.
Dýrin fædd í Ameríku
Samanburður á erfðaefni dauðu hestanna annars vegar og nútímahesta hins vegar, leiddi auk þess í ljós skyldleika milli indíánahestanna og landnemahrossanna og að öll hrossin hefðu fæðst í Ameríku.
Ekki er vitað fyrir víst hvernig sléttuindíánarnir hafa komist yfir hesta sína en fræðimenn geta sér til um að indíánarnir hafi annað hvort keypt skepnurnar af Spánverjum í suðurhluta Bandaríkjanna ellegar tamið hross sem sloppið hafi frá landnemunum.
„Öllum þessum upplýsingum hefur nú verið safnað á einn stað og þær segja okkur yfirgripsmikla og nákvæma sögu sem þeir innfæddu ávallt hafa þekkt en sem hefur aldrei fengist viðurkennd“, segir sagnfræðingurinn Jimmy Arterberry sem tók þátt í rannsókninni.