Hugmyndina um að sendiráð njóti sérstakrar lagalegrar stöðu má rekja aftur til fornaldar þegar diplómatar og sendiboðar nutu sérstakrar verndar og ferðafrelsis.
Síðar á miðöldum og á endurreisnartímanum tóku mörg evrópsk ríki að móta diplómatísk sambönd sín og þróa óskrifaðar leikreglur fyrir sendiráð.
Það var samt fyrst á 18. öld þegar sendiherrar tóku fasta búsetu í mörgum ítölskum borgríkjum sem diplómatísk friðhelgi breiddist út.
Það var síðan ekki fyrr en árið 1961 sem alþjóðlegur samningur var mótaður í Vín til að leggja línurnar fyrir diplómatísk sambönd.
Samningurinn hefur verið undirritaður af 193 löndum og þar kemur fram að sendiráð og starfsmenn þess njóti friðhelgi.
Þannig ber þessum löndum skylda til að verja byggingar gestaþjóðar fyrir árásum og yfirvöld mega sjálf ekki ráðast inn í sendiráð án leyfis.
Friðhelgi sendiráða hefur margsinnis verið rofin, m.a. þegar íranskir námsmenn hertóku sendiráð BNA í Tehran árið 1979 og tóku diplómata í gíslingu.
Sendiherra myrti konuna sína
Þó eru takmörk fyrir friðhelgi sendiráðanna.
Þannig geta ríkisstjórnir krafist þess að fá aðgang að sendiráðum ef diplómati hefur framið alvarlegan glæp á yfirráðasvæði sendiráðsins.
Það átti sér t.d. stað árið 1969 þegar sendiherra Myanmar, W. H. K. Boonwat, myrti konu sína í sendiráðsbústað á Siri Lanka og brenndi síðan lík hennar í bakgarðinum.
Einnig má rjúfa friðhelgina ef sendiráðið er notað fyrir aðgerðir sem stríða gegn öryggi gestgjafalandsins eða hagsmunum þess.
Slíkar smugur hafa mörg lönd nýtt sér. Síðasta dæmið átti sér stað í apríl 2024 þegar lögreglan réðist inn í sendiráð Mexíkó í höfuðborg Equador, Quito.
Þar hafði fyrrum varaforseti Equadors, Jorge Glas, leitað skjóls og hælis eftir að hafa verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir spillingu.
Friðhelgi sendiráða rofin
Þann 1. apríl 2024 sprengdu Ísraelar sendiráð Írana í Sýrlandi og jöfnuðu fimm hæða háa byggingu við jörðu og drápu tvo herforingja úr byltingarvörðum Írans. En árásin í höfuðborg Sýrlands er alls ekki fyrsta árásin á diplómata annars lands. Hér eru þrjú dæmi um árásir sem kostuðu fjölmörg mannslíf.
Sprengjuárás á sendiráð BNA (1998)
Dagsetning: 7. ágúst 1998
Staður: Kenya og Tansanía
Tala látinna: 224
Nokkurn veginn á sama tíma keyrðu tveir vörubílar fullir af sprengiefni inn í sendiráð BNA í Nairobi, Kenya og Dar es Salaam, Tansaníu, þar sem þeir sprungu í loft upp. Árásir þessar voru skipulagðar af hryðjuverkasamtökunum Al-Qaeda og beindust gegn BNA sem svar við inngripum þeirra í Miðausturlöndum. Árásir þessar mörkuðu nýtt tímaskeið árása herskárra íslamista á skotmörk sem beindust gegn Vesturlöndum en áttu sinn þátt í að kveikja allsherjarstríð BNA gegn hryðjuverkum.
Umsátur um sendiráð (1900)
Dagsetning: 20. júní -14. ágúst 1900
Staður: Kína
Tala látinna: 55
Sumarið 1900 varð sendiráðahverfi í Beijing fyrir umsátri kínverskra boxarauppreisnarmanna sem og hermanna keisaradæmisins. Þar var verið að mótmæla áhrifum vestrænna kaupsýslumanna og stjórnmálamanna í Kína og hugðust þeir varpa öllum útlendingum út úr landinu. Umsátrið stóð í næstum tvo mánuði en þrátt fyrir endurteknar árásir tókst sendiráðunum að standast atlögurnar þar til alþjóðlegur herstyrkur kom og rauf umsátrið.
Kveikt í spænsku sendiráði (1980)
Dagsetning: 31. janúar 1980
Staður: Guatemala
Tala látinna: 36
Í borgarastríðinu í Guatemala (1960-96) sat hópur maya-bænda og námsmanna um spænska sendiráðið í Guatemalaborg. Tilgangurinn var að mótmæla ofbeldi og kúgun ríkisstjórnarinnar. Lögreglan umkringdi sendiráðið og réðst á bygginguna. Það endaði með því að lögreglan kveikti í sendiráðinu sem leiddi til þess að fjölmargir mótmælendur og diplómatar fórust í logunum.