Menning og saga

Hvenær komu menn til Ameríku?

Fyrir um 13.500 árum fluttu asískir veiðimenn sig frá Síberíu eftir þurrlendisræmu til Alaska í leit að stórum veiðidýrum. Þaðan dreifðu þeir sér á tiltölulega fáum öldum bæði um Norður- og Suður-Ameríku. Þetta hefur áratugum saman talist viðurkenndur sannleikur, en kenningin mætir nú öflugri mótspyrnu. Á síðari árum hafa vísindamenn tekið að setja fram aðrar hugmyndir um það sem kallað hefur verið stærsta ráðgátan í útbreiðslusögu mannsins. Ýmislegt bendir til að mannkynið eigi sér mun eldri rætur í Ameríku – kannski allt frá því fyrir 50.000 árum.

BIRT: 04/11/2014

Kenning 1 – Clovis-Fólkið kom fyrst

Menn komu til Ameríku úr norðurátt fyrir 13.500 árum

 

Fyrir tæpum 80 árum var sú kenning sett fram að asískir veiðimenn hafi orðið fyrstir til að taka hin amerísku landsvæði í notkun. Bráðnandi jöklar sköpuðu þá tækifæri til að komast til Ameríku að norðan. Til vitnis um þetta voru mörg þúsund spjótsoddar sem fundust við bæinn Clovis.

 

 

SAGA KENNINGARINNAR

Árið 1929 fann 19 ára bandarískur piltur, Ridgely Whiteman, nokkra vanda spjótsodda úr tinnu skammt frá Clovis í New Mexico.

 

Uppgötvunin leiddi til þess að mikið var grafið upp á svæðinu og fornleifafræðingar fundu miklu fleiri spjótsodda og mikið af beinum úr mammútum sem orðið höfðu mönnum að bráð. Kolefnisgreining (C-14) leiddi í ljós að mammútabeinin voru um 13.500 ára gömul og hér því elstu ummerki manna sem fundist höfðu í Ameríku.

 

Fólksflutningar stórdýraveiðimanna höfðu sem sagt leitt af sér landnám í Ameríku og af þessari veiðimannaþjóð voru svo indíánar í Suður- og Norður-Ameríku komnir. Þetta var sú ályktun sem þá var dregin.

 

Í kjölfar uppgötvananna í New Mexico fundust svipaðir spjótsoddar allvíða í Norður-Ameríku og nokkrir fundust líka í norðurhluta Suður-Ameríku.

 

Á þessum grundvelli settu vísindamenn fram hina svonefndu Clovis-kenningu upp úr 1930. Samkvæmt kenningunni voru það mammútaveiðimenn sem fóru eftir þurrlendisbrú milli Síberíu og Alaska fyrir um 13.500 árum.

 

Jöklar ísaldar voru teknir að hopa og af því leiddi að gegnum áður ísi þaktar auðnir í Norður-Ameríku hafði opnast leið sem mammútaveiðimennirnir nýttu sér til að komast suður á fengsælli veiðisvæði.

 

Veiðar fólksins á m.a. mammútum, úlföldum og hestum leiddu til þess að á fáeinum öldum breiddist mannfólkið út um stærstan hluta Norður- og Suður-Ameríku.

 

Síðan hafa vísindamenn fundið allt að 16.000 spjótsodda af þessari sömu gerð, en langmest af þeim – meira en þrír fjórðu hafa fundist í austurhluta Bandaríkjanna.

 

STYRKUR KENNINGARINNAR


Fyrir um 13.500 árum lá landbrú yfir Beringssund og tengdi saman Asíu og Ameríku.

 

Það var því gerlegt að komast fótgangandi milli þessara meginlanda. Aldur Clovis-minjanna kemur prýðilega heim við þann tíma þegar loftslagið gerði mönnum kleift að birtast í Norður-Ameríku eftir þessari leið. Ísöldin var á undanhaldi og stórir jöklar í Norður-Ameríku teknir að bráðna. Þannig myndaðist íslaus leið sem landnemarnir gátu nýtt sér.

 

VEIKLEIKAR KENNINGARINNAR


Samkvæmt kenningunni kom Clovis-fólkið frá Síberíu til Alaska. En þrátt fyrir mikla leit hafa fornleifafræðingar ekki fundið áþreifanleg ummerki þessa fólks á þeim slóðum. Stærsti veikleikinn er þó sá að víða annars staðar í Norður-Ameríku hafa vísindamenn fundið enn eldri ummerki manna.

 

Þessar uppgötvanir sanna án efa að menn voru komnir til Bandaríkjanna á undan Clovis-þjóðinni.

 

VIÐURKENNING


Clovis-kenningin var áratugum saman eina viðtekna kenningin um hvenær og hvernig menn hefðu fyrst lagt undir sig Ameríku. Síðustu 10-20 ár hafa flestir vísindamenn dæmt kenninguna úr leik.

 

UPPHAFSMAÐURINN


Ridgely Whiteman fann spjótsodda úr tinnu við Clovis í New Mexico árið 1929.

 

Kenning 2 -Fyrir Clovis-kenningin

Menn sigldu til Ameríku fyrir 14.500 árum

 

 

Á 8. áratug síðustu aldar hófst uppgröftur steinaldarbústaðar í Chile. Sú vinna stendur enn og mikið hefur fundist af mannvistarleifum frá því fyrir daga Clovis-fólksins.

 

SAGA KENNINGARINNAR


Fyrir tilviljun uppgötvuðu feðgarnir Juan og Sergio Barria, árið 1975, skögultönn úr mastódon, útdauðri fílategund, á landareign sinni í Monte Verde í Suður-Chile, skammt frá strönd Kyrrahafsins.

 

Fjölskyldan hafði samband við háskólann í Valdivia og þaðan kom fornleifafræðingurinn Tom Dillehay, sem gat slegið því föstu að tönnin væri úr forsögulegri stórskepnu sem vegið hefði um 2 tonn.

 

Hann fékk í lið með sér jarðfræðinginn Mario Pino frá sama háskóla og fjölda vísindamanna frá ýmsum löndum. Árið 1977 hóf Dillehay uppgröft á bakka Chinchihuapi-fljótsins við Monte Verde og um leið voru vísindalegar stórfréttir í uppsiglingu.

 

Í vatnsheldum mólögum fundu vísindamennirnir hundruð steinverkfæra, leifar fjölmargra eldstæða, viðarleifar sem bentu til tjaldbygginga, húðir af mastódonfílum og mikið af dýrabeinum ásamt ummerkjum um a.m.k. 45 tegundir matjurta.

 

Kolefnisgreiningar á lífrænum efnum sýndu að hér höfðu menn búið fyrir a.m.k. 14.500 árum, eða 1.000 árum fyrr en Clovis-fólkið kom til sögunnar.

 

Uppgötvun þessara forsögulegu mannvistarleifa, þar sem m.a. fundust þrjú fótspor eftir barn, var í fyrstu vísað algerlega á bug af vísindasamfélaginu.

 

Monte Verde gat ekki á nokkurn hátt fallið að viðurkenndum hugmyndum um ferðir fyrstu Ameríkumannanna og að auki var útilokað að fólk sem hér bjó á þessum tíma hefði komist sömu leið og Clovis-fólkið – en leiðin frá Síberíu var í augum vísindamanna eina mögulega hliðið að meginlandi Ameríku.

 

Fyrir 14.500 árum var Norður-Ameríka algerlega lokað land og alþakið jöklum. Margir vísindamenn sáu því enga aðra leið en að ganga út frá því að aldursgreiningar á leifum frá Monte Verde væru rangar.

 

Með Tom Dillehay í fararbroddi héldu vísindamenn áfram uppgreftri í Monte Verde, en það var ekki fyrr en 1997 sem farið var að taka þessar uppgötvanir alvarlega.

 

Það ár fóru 12 virtir vísindamenn yfir gögnin, bæði þá muni sem fundist höfðu og staðinn sjálfan. Að lokinni athugun sinni sneru þeir þumalfingrinum upp. Rétt eins og Dillehay hafði haldið fram, voru mannvistarleifarnar ekki yngri en 14.500 ára. Dillehay hefur haldið uppgreftri áfram og árið 2008 gekk hann frá vísindalegri lýsingu á eins konar kökum úr pressuðu þangi, sem reynst hafa eldri en 14.000 ára.

 

Vísindamennirnir að baki þessari kenningu telja að menn hafi komið sjóleiðis bæði til Monte Verde og annarra hluta Ameríku.

 

STYRKUR KENNINGARINNAR


Búsetusvæðið í Monte Verde er síður en svo eini staðurinn í Ameríku þar sem fundist hafa ummerki manna fyrir tíma Clovis-fólksins.

 

Uppgröftur hefur mun víðar leitt í ljós ummerki sem styðja kenninguna um að menn hafi áður verið komnir til Ameríku. Meðal hinna merkustu er uppgröftur í Meadowcroft Rockshelter, skammt frá Pittsburg í Pennsylvaníu í BNA.

 

Þar fundu fornleifafræðingar í helli einum bæði áhöld og matarleifar sem aldursgreining sýnir að séu ekki yngri en 17.500 ára. Á öðrum stað, ekki mjög fjarri, Cactus Hill í Virginíu, hafa aðrir fornleifafræðingar fundið steináhöld, plöntuleifar og dýrabein sem eru a.m.k. 18.000 ára. Nálægt Kenosha í Wisconsin hafa líka fundist bein úr slátruðum mammútum sem aldursgreiningar sýna að séu a.m.k. 14.500 ára.

 

Það styrkir líka þessa kenningu að hafi fyrstu Ameríkumennirnir komið sjóleiðina, hafa þeir ekki þurft að fara yfir ísi þakin og ófær landsvæði í Norður-Ameríku.

 

Leiðin meðfram Ameríkuströndum var vissulega löng en þar hefur mönnum trúlega gefist fiskur úr sjó og það hefur auðveldað ferðalagið.

 

VEIKLEIKAR KENNINGARINNAR


Einstaka vísindamenn ásaka Dillehay og félaga hans fyrir óvönduð vinnubrögð við uppgröftinn í Monte Verde.

 

Skráning einstakra muna er ónákvæm og meðferð svo ábótavant að efnið er ónothæft, segja hörðustu gagnrýnendurnir og bæta því við að aldursgreiningar séu rangar.

 

VIÐURKENNING


Kenningin nýtur nú víðtækrar viðurkenningar. Meirihluti sérfræðinga telur nú uppgötvanir í Monte Verde sanna að þar hafi lifað fólk fyrir a.m.k. 14.500 árum.

 

UPPHAFSMAÐURINN

Tom Dillehay er helsti talsmaður Fyrir Clovis-kenningarinnar. Hann stundar enn uppgröft í Monte Verde.

 

Kenning 3 – Menn komu mjög snemma

Menn komu til Ameríku fyrir næstum 50.000 árum

 

 

Ýmsir fornleifafundir á síðustu 5-10 árum benda til að menn hafi fyrst komið til Ameríku miklu fyrr en fornleifafræðingar hafa talið fram að þessu – jafnvel fyrir allt að 50.000 árum. Þá fóru forfeður indíána hér um landið og skildu eftir sig frumstæð steináhöld og fótspor sem varðveist hafa í gjóskulögum eftir eldgos.

 

SAGA KENNINGARINNAR


Í ljósi fornleifafunda í Bandaríkjunum, Mexíkó og Brasilíu telja sumir vísindamenn að menn hafi komið til Ameríku fyrir 40-50 þúsund árum.

 

Árið 2003 fann fornleifafræðingurinn Al Goodyear, hjá Suður-Karólínu-háskóla, í Topper í Suður-Karólínu í BNA, ummerki eftir fólk sem búið hefur meðfram Savannah-fljóti löngu áður en Clovis-fólkið kom til sögunnar.

 

Á fimm metra dýpi, undir mannvistarleifum frá Clovis-tímanum, fann hann áhöld úr tinnu og líklega eldstæði með trékolum. Kolefnisgreining, gerð árið 2004, benti til að þessar leifar væru 40-50 þúsund ára gamlar.

 

Það var líka árið 2003 sem breskir vísindamenn frá John Moore-háskóla í Liverpool fundu allmörg forsöguleg fótspor nærri bænum Puebla í Mexíkó. Alls eru sporin 269 og þar af 164 eftir menn, en hitt eru dýraspor.

 

Af stærð sporanna draga vísindamennirnir þá ályktun að þau stærstu séu eftir mann sem verið hefur um 190 sm á hæð, en þau minnstu eftir barn, um 120 sm.

 

Aldursgreining sýnir að sporin séu um 40.000 ára gömul.

 

Við klett á sjávarströnd í Pedra Furada í Brasilíu hafa fundist frumstæð steináhöld og trékol sem samkvæmt aldursgreiningu eru 50.000 ára eða svo. Það var brasilíski fornleifafræðingurinn Niede Guidon sem fyrstur rannsakaði þetta svæði um 1970, en síðan hafa fundist þar steináhöld þúsundum saman.

 

Áhangendur þessarar kenningar gera ráð fyrir að fyrstu mennirnir hafi komið sjóleiðina til Ameríku.

 

STYRKUR KENNINGARINNAR


Gjóskulagið með fótsporunum í Mexíkó hefur verið aldursgreint á tveimur rannsóknastofum í Oxford og með tveimur mismunandi aðferðum, annars vegar „hröðunarmassalitrófsaðferð“ (accelerator-mass-spectrometry) hins vegar „ljósgreiningarlíkansaðferð“ (optic simulation luminence-analysis). Niðurstaðan var í báðum tilvikum 38.000 ár og vikmörkin 8.600 ár í hvora átt.

 

Svo mikið er víst að menn fóru snemma í sjóferðir og gátu lagt að baki langar vegalengdir yfir haf. Til Ástralíu komu menn sjóleiðina fyrir 40-50 þúsund árum og þannig gætu menn líka hafa komist alla leið til Ameríku.

 

VEIKLEIKAR KENNINGARINNAR


Trúverðugleiki fornleifanna er ekki fullkomlega ljós. Í Topper og Pedra Furada gætu tinnusteinarnir verið höggnir af mönnum, en þeir gætu líka hafa formast svona í náttúrunni.

 

Og fótsporin í Mexíkó gætu verið grunnar holur, mótaðar af einhverju öðru en mönnum. Að auki eru aldursgreiningar frá fundarstöðunum þremur mjög umdeildar.

 

VIÐURKENNING


Flestir vísindamenn telja kenninguna of ótrausta og hún er mjög umdeild. Margir draga aldursgreiningar í efa og sömuleiðis hvort yfirleitt sé um að ræða leifar eftir forsögulega menn.

 

UPPHAFSMAÐURINN
Silvia Gonzalez hyggst nýta allar hugsanlegar aðferðir til að greina aldur fótsporanna í Mexíkó.

 

Hvaðan komu frumbyggjarnir?

Vísindamenn eru ósammála um hvenær menn komu fyrst til Ameríku og ekki gengur þeim betur að átta sig á hvaðan þessir frumbyggjar komu.

 

Þegar Clovis-kenningin er svo gott sem úr leik, er þar með útilokað að fyrstu mennirnir hafi komið um landbrúna yfir Beringssund. Þess vegna beina menn nú augum sínum að sjóleiðum.

 

Flestir hallast að því að fyrstu ameríkanarnir hafi farið á bátum eða flekum frá Asíu og suður með vesturströnd Ameríku.

 

Mannvistarleifarnar í Monte Verde í Chile eru rétt við Kyrrahafsströndina og það getur stutt þessa hugmynd. Annar möguleiki er sá að steinaldarmenn í Evrópu hafi farið yfir Atlantshaf og gengið á land á austurströndinni.

 

Þessi hugmynd byggir á því að Clovis-menningin hafi átt sér evrópskar rætur. Það eru nefnilega sláandi líkindi milli spjótsodda Clovis-manna og steinodda sem þekktir eru frá Solutré-veiðimönnum í núverandi Frakklandi fyrir um 20.000 árum.

 

Fæstir aðhyllast þá hugmynd að fyrstu ameríkanarnir hafi komið frá Ástralíu yfir Kyrrahaf.

 

Vísindamenn hafa þó ekki fundið nein örugg ummerki eftir fyrstu innflytjendurna, hvorki á austur- né vesturströndinni, en ástæðan gæti verið sú að slíkar mannvistarleifar séu nú á hafsbotni.

 

Þegar jöklar bráðnuðu í lok ísaldar hækkaði yfirborð heimshafanna um allt að 50 metra. Þá flæddi sjór svo langt inn í land að þáverandi strandlengja er nú sums staðar 60 km frá landi.

 

Þess vegna rannsaka vísindamenn nú hafsbotninn bæði vestur og austur af Ameríku í leit að t.d. beinum sem gætu hjálpað mönnum að bera kennsl á fyrstu íbúa Ameríku.

 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.