Breskir vísindamenn hneyksluðust árið 1859. Þetta ár gaf náttúruvísindamaðurinn Charles Darwin út bókina „Uppruni tegundanna“, þar sem hann kynnti til sögunnar þróunarkenninguna. Samkvæmt kenningunni eiga allar lifandi verur rætur að rekja til sameiginlegra forfeðra og hafa þróast í ólíkar tegundir samkvæmt náttúruvali.
Kenningin þótti marka tímamót og einkennast af guðlasti og hrintu hugmyndir Darwins af stað mikilli umræðu. Þrátt fyrir mótbárurnar var Darwin engan veginn einn um að hafa gert sér þróunina í hugarlund.
MYNDSKEIÐ: Svona voru móttökur þróunarkenningar Darwins:
Grikkir íhuguðu þróun
Einn fyrsti „þróunarsinninn“ var Grikkinn Anaximander (610-546 f.Kr.). Heimspekingur þessi áleit að allt líf hefði myndast í vatni og að sjávardýr hefðu síðan synt upp á land og aðlagast lífi þar.
Einnig að mennirnir hefðu þróast úr dýrum sem líktust fiskum og „innan í þessum dýrum hafi maðurinn byrjað að mótast“, ef marka mátti Anaximander.
Aðrir miklir hugsuðir fornaldarinnar, m.a. Zenon frá Kition (um 334-262 f.Kr.), álitu að allar lífverur gegndu tilteknu hlutverki og að náttúran legði sig ávallt í líma við „að skapa þá tegund sem mestar líkur væru á að lifði af“.
Anaximander var þeirrar skoðunar að öll dýr sem lifa á landi væru afkomendur sjávardýra sem eitt sinn hefðu skriðið upp á land.
Kirkjan spyrnti við fótum
Þó svo að heimspekingar fornaldar hafi hugsað á svipuðum nótum og Darwin, áttu hugsanir þeirra ekki upp á pallborðið í fornöld þar sem kirkjan sagði svo fyrir um að guð hefði skapað allt. Fyrir vikið væru allar verur fullkomlega skapaðar og gætu eðli málsins samkvæmt ekki þróast.
Þessar kennisetningar heftu þó ekki múslímska vísindamenn. Arabíski sagnfræðingurinn og heimspekingurinn Abd al-Rahman Ibn Khaldun ritaði t.d. árið 1377 að maðurinn hefði þróast af „öpum“, jafnframt því sem tegundirnar fjölguðu sér.
Þetta var einmitt það sem Charles Darwin hugðist færa sönnur á með útgáfu ritsins „Uppruni tegundanna“ árið 1859. Í dag viðurkenna vísindamenn um allan heim þróunarkenninguna.