Þann 18. júlí árið 64 var steikjandi hiti í hinni tilkomumiklu höfuðborg Rómarríkis.
Því miður var nokkur strekkingur þennan dag sem reyndist óheppilegt þegar eldur varð laus síðla kvölds í kraðaki af sölubúðum, sem lágu þétt saman umhverfis Circus Maximus í miðborg Rómar.
Þrátt fyrir að margar hallir og opinberar byggingar væru úr steini og marmara, bjó mestur hluti íbúanna í tréhúsum, þannig að eldurinn breiddist skjótt út.
Einungis 4 af 14 hverfum Rómar sluppu við eldhafið. Það sem gerir brunann árið 64 frábrugðinn öðrum er að rómverska keisaranum Neró var kennt um að hafa kveikt eldana.
Sagt er að hann hafi óskað eftir nýju hallarstæði. Eins hermir sagan að hann hafi staðið á Palatinerhæð og spilað á líru meðan hann naut þess að horfa á eldslogana.
Myrti móður sína og eiginkonu
Nú er ekki hægt að segja að Neró hafi verið neinn fyrirmyndarborgari. Hann komst til valda aðeins 17 ára gamall árið 54 og er m.a. þekktur fyrir að hafa látið myrða bæði móður sína og eiginkonu.
Vinsældir hans meðal almennings voru því harla litlar. En þó er varla rétt að kenna honum um þennan afdrifaríka bruna.
Samkvæmt handritum sagnaritans Tacítusar var Neró hreint ekki staddur í Róm þegar eldurinn braust út – sem er þó engin sönnun fyrir því að hann hafi ekki staðið að baki eldsvoðanum – en hann hraðaði sér til Rómar þegar hann fregnaði ótíðindin.
Stjórnaði slökkvistarfinu
Fyrstu nóttina eftir heimkomuna fór hann víða og stjórnaði slökkvistarfinu. Þegar búið var að ráða niðurlögum brunans eftir 7 daga opnað hann höll sína fyrir heimilislausum.
Hann sá þeim einnig fyrir mat og sumir fræðimenn telja að hann hafi jafnvel goldið þetta með eigin peningum.
Eftir brunann gerði hann það sem í hans valdi stóð til að hindra samsvarandi slys. Hann lét skipuleggja borgina upp á nýtt þar sem öll hús voru byggð úr múrsteinum, með meira millibili og jafnframt voru götur Rómar breikkaðar.
Orðrómurinn lífseigur
Þrátt fyrir allt þetta framtak náðu sögusagnir um sekt Nerós fótfestu, en sjálfur tók hann að ofsækja lítinn kristinn söfnuð Rómar, sem hann taldi ábyrgan fyrir brunanum.
Sumir hinna kristnu voru rifnir í sundur af hundum en aðrir krossfestir eða brenndir. Orðróminn um eigin sök tókst Neró þó ekki að kveða niður.
Nú á dögum vita menn ennþá ekki hvernig eldarnir hófust, en þegar miklir hitar geisa og öflugur vindur blæs þarf í raun ekki annað en að lampi velti um koll.