„Þetta er vissulega fyrsta abstrakt málverkið, því á þessum tíma málaði ekki einn einasti listmálari abstrakt verk. Þetta er sögulegt málverk“.
Þannig ritaði rússneski málarinn og listfræðingurinn Vasili Kandinsky árið 1935 um eitt málverka sinna í bréfi til eiganda gallerís í New York.
Þetta var hreint ekki út í bláinn hjá honum því samkvæmt mörgum listfræðingum er Kandinsky eiginlegur faðir abstrakt listar sem fæddist í upphafi tuttugustu aldar.
Ný listastefna verður til
Það málverk sem Kandinski var að ræða um í bréfi sínu er „Komposition V“. Verkið var sýnt í München 1911 og Komposition V var þar með fyrsta abstrakt listaverkið sem náði til almennings.
Málverkið var holdtekning á nýrri listastefnu – abstraktlist – sem Kandinsky hafði sjálfur fjallað um í stefnuskrá frá 1909, þar sem hann lýsti þessari nýju listastefnu og útskýrði listafræðilegan grunn hennar.
Meginefnið í stefnuskránni er að abstraktlist styðjist við sjónrænt tungumál í formi mynstra, lita og lína til að skapa verk sem er ekki bundið af þeim heimi sem við sjáum í kringum okkur.
Lagt var hald á þrjú af listaverkum Kandinskys og þau eyðilögð af nasistum upp úr 1930 en Komposition V lifði af þær hreinsanir.
Á meðan Kandinsky málaði Komposition V voru einnig aðrir listamenn farnir að tefla fram verkum sem núna er lýst sem abstrakt list.
Þrátt fyrir að Kandinsky sé af mörgum talinn fyrsti abstrakt málarinn er ekki einsýnt að sá titill tilheyri honum, því að nýjar listastefnur verða til á löngum tíma og eru jafnan afleiðing af sameiginlegri og hugmyndafræðilegri þróun margra listamanna.
Robert Delaunay, Mikhail Larionov, Natalia Goncharova, Kazimir Malevich og Hilma af Klint eru aðrir framúrskarandi listamenn sem jafnframt eru taldir frumkvöðlar innan abstrakt listar.