Forn-Egyptar voru eftir öllum ummerkjum að dæma fyrstir til að bíta í brakandi djúpsteiktan mat fyrir einhverjum 4.500 árum. Egyptar notuðu einkum djúpsteikingaraðferðina til að búa til vinsælan eftirrétt sem samanstóð af gómsætu deigi og var því dýft ofan í sjóðandi olíu. Hunangi var síðan gjarnan hellt yfir dásemdina.
Bæði olía og hunang voru verðmætur varningur, þannig að djúpsteiktur matur Egypta hefur líkast til verið einvörðungu á færi efstu stéttarinnar.
Frá Egyptalandi dreifðist þessi matarmenning til nærliggjandi svæða og var vinsæl m.a. hjá Rómverjum sem steiktu nánast allt ætilegt í ólífuolíu. Samkvæmt rómversku matarbókinni „De re coquinaria“ var djúpsteiking fyrst notuð af Rómverjum til að steikja kjúklinga.
Franskar kartöflur eru líklega hvað þekktasti djúpsteikti rétturinn og komu líklega fyrst fram á 18. öld.
Steypt járn notað til djúpsteikingar
Það var síðan á 13. öld sem djúpsteiking barst út um alla Evrópu. Þar var aðferðin einkum vinsæl á suðlægari svæðum, þar sem fiskur var steiktur. Þegar Suður-Evrópubúar héldu síðar í könnunarferðir tóku þeir þessa matarmenningu með sér til Asíu og Nýja-heimsins (Ameríku).
Djúpsteiking okkar tíma blómstraði á 18. öld þegar pottar úr steyptu járni urðu algengir. Þessir nýju suðupottar gátu þolað hærra hitastig og voru notaðir til að skapa ódauðlega, djúpsteikta rétti eins og franskar kartöflur, fiskmeti hvers konar, „fish and chips“ og „fried chicken“, svo fátt eitt sé nefnt.