LESTÍMI: 2 MÍNÚTUR
Sú hefð að koma fyrir kertum á jólatréð á rætur að rekja til Þýskalands á 18. öld og um það bil tveimur öldum síðar var hefðin endurbætt með nútímatækni. Þremur árum eftir að Edison fann upp rafmagnsperuna fékk einn vina hans nefnilega stórgóða hugmynd.
Edward Hibberd Johnson var aðstoðarframkvæmdastjóri í Edison-rafljósafyrirtækinu í New York og rétt fyrir jólin 1882 kom hann fyrir jólatré í stofunni sinni með 80 rauðum, hvítum og bláum rafmagnsperum.
Léleg auglýsingabrella
Dagblöðin í New York trúðu þessu ekki og héldu að um væri að ræða óvandaða auglýsingabrellu og neituðu að skrifa um jólatré Johnson-fjölskyldunnar. Sagan um tréð barst hins vegar til eyrna ritstjóra dagblaðs sem gefið var út í Detroit og sendi ritstjórinn blaðamann alla leið til New York í því skyni að berja viðundrið augum. „Þetta var ótrúleg sjón,“ ritaði blaðamaðurinn í blaðið, en fréttinni fylgdi sú skýring að hver pera hefði verið á stærð við valhnetu.
Rafmagnsjólatré í Hvíta húsinu
Hrifningin átti sér engin takmörk. Tæknin að baki var hins vegar afar flókin og nýju jólaljósin komu fyrst á markað árið 1890. Fimm árum seinna komust þau svo í tísku þegar forsetinn Grover Cleveland lét setja upp fyrsta rafljósaprýdda jólatréð í Hvíta húsinu sem skreytt var rösklega eitt hundrað perum.
Þegar þarna var komið sögu var það þó einungis efnafólk sem hafði tök á að skreyta tré sín með rafljósum, því kringum aldamótin 1900 kostaði það verulegar upphæðir að prýða eitt jólatré með rafmagnsljósum og gera má ráð fyrir að upphæðin fyrir hvert tré hafi numið því sem samsvarar um 300.000 íslenskum krónum í dag.
Rafmagnsljós á jólatré voru orðin tiltölulega algeng kringum 1930 þegar almenningur loks fór að hafa efni á þeim.
Birt: 12.12.2021
Hans Henrik Fafner