Á öðrum reikistjörnum, þar sem ekki er unnt að miða við yfirborð sjávar, er nauðsynlegt að finna einhvers konar meðalhæð á hnettinum til viðmiðunar.
Í þeim tilgangi eru gerðar hæðarmælingar með leysi eða radar.
Á Mars hefur hæðarmunur verið mældur mjög nákvæmlega frá gervihnettinum Mars Global Surveyor. Á grundvelli mælinga með leysitækinu “Mars Orbiter Laser Altimeter” var hægt að ákvarða meðalgeisla (radíus) hnattarins við miðbaug 3.396.200 metra með 160 metra nákvæmni. Þessi meðalgeisli er nú notaður sem núllpunktur við hæðarmælingar.
Á sama hátt hafa menn mælt hæðarmun á Venusi með radartækjum um borð í gervihnettinum Magellan, sem var í braut um Venus í fjögur ár, 1990-1994. Hér var núllhæðin ákvörðuð sem meðalhæð flatlendisins sem þekur meginhlutann af yfirborði reikistjörnunnar.