Þegar maður stendur berfættur á vigtinni, sendir hún vægan og alveg hættulausan rafstraum upp í gegnum líkamann.
Í þessu sambandi kemur það að góðum notum að líkamsfita leiðir nánast ekki rafstraum.
Það gera aftur á móti vöðvar og aðrir líkamsvefir. Á leið sinni gegnum líkamann mætir rafstraumurinn mikilli mótstöðu frá fitufrumunum og aðeins lítill hluti hans nær að vinna sig í gegnum þessar frumur, sem í ofanálag virka eins og þéttir og halda straumnum í sér.
Straumurinn er leiddur upp í gegnum annan fótinn og niður í gegnum hinn. Með nokkurri einföldun má segja að vigtin mæli hve mikið af rafmagninu skilar sér til baka.
Aðferðin telst þó fremur ónákvæm til að mæla líkamsfitu. Jafnvel bestu vogir með þessum búnaði skila niðurstöðum sem skeikað getur um 4% og óvissumörkin geta verið mun stærri í ódýrum heimilisvigtum, ekki síst vegna þess að straumurinn berst aðeins um neðri hluta líkamans.
Að auki hefur það áhrif á niðurstöðuna hvort maður er nýbúinn að drekka mikinn vökva eða tiltölulega lítill vökvi er í líkamanum.
Hátt fituhlutfall eykur hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Konum er eðlilegt að hafa hærra hlutfall líkamsfitu en körlum.