Þótt beinvefur sé fjórfalt sterkari en steinsteypa, lendir meirihluti fólks einhvern tíma á ævinni í óhappi sem veldur beinbroti.
Þegar fólk kemur á slysavarðstofu með beinbrot er byrjað á röntgenmyndatöku til að læknirinn sjái stöðu beinendanna alveg skýrt. Því næst þarf að setja beinendana rétt saman.
Með því tryggir læknirinn að sem minnst þurfi að mynda af nýjum beinvef og að beinendarnir grói rétt saman og án skekkju.
Beinendum haldið stöðugum
Að þessu loknu þarf að tryggja að beinendarnir haggist ekki meðan brotið er að gróa. Þetta er oftast gert með gifsi og stundum spöngum sem bæði veita stuðning og draga úr sársauka, þar sem beinendarnir haggast ekki og valda því ekki sköddun á nærliggjandi vef eða taugum.
Í flóknari tilvikum þarf að festa beinendana saman með málmþræði, nagla eða skrúfum en til þess þarf skurðaðgerð.
Þumalfingursreglan er sú að beinbrot í neðri hluta líkamans þurfi tvöfalt lengri tíma til að gróa (16 vikur) en í efri hlutanum (8 vikur). Í börnum gróa beinin þó oft tvöfalt hraðar en í fullorðnum. Eldra fólk á hins vegar mun lengur í beinbrotum.
Gróin bein verða oft sterkari
Beinbrot þýðir oft vikur og mánuði í gifsi, en eftir á er gróið beinbrot oft sterkasti hluti beinsins.
1. Blóð streymir út á brotsvæðið
Þegar bein brotnar rofna æðar í brotinu og blóð safnast upp.
2. Stofnfrumur mynda nýjan beinvef
Svonefndar osteogenstofnfrumur þyrpast á brotsvæðið og taka að mynda nýjan beinvef. Æðar vaxa líka saman.
3. Blóðsöfnun myndar brjósk
Osteogenfrumurnar mynda brjóskvef sem á nokkrum mánuðum dregur í sig kalk og styrkist stöðugt.
4. Beinið verður aftur heilt
Eftir nokkra mánuði er brotið gróið. Á meðan veldur kyrrðin því að nýmyndaður beinvefur verður enn sterkari.