Svæfing er notuð við skurðaðgerðir til að koma í veg fyrir að sjúklingurinn finni sársauka og bregðist við honum. Öfugt við staðdeyfingu virkar svæfingarlyfið á miðtaugakerfið og þar með á allan líkamann. Svæfingarlyf eru samsett úr tveimur eða fleiri efnum sem saman virka deyfandi, hemja sársauka og slaka á vöðvum.
Efni á borð við áfengi og morfín hafa bæði deyfandi og sársaukastillandi áhrif en eru þó óheppileg vegna þess að ekki er unnt að stýra verkun þeirra. Góðu svæfingarlyfi þarf að vera auðvelt að stjórna þannig að auka megi verkun þess eða draga úr henni meðan á aðgerðinni stendur. Efni í gasformi eru sérlega heppileg. Þegar læknirinn skrúfar fyrir gasið, berst efnið í blóðinu til lungnanna og hverfur með útöndun. Annar kostur við hraðvirkandi svæfingarlyf er sá að sjúklingurinn vaknar skömmu eftir aðgerðina.
Vöðvaslakandi efnið kemur í veg fyrir að sjúklingurinn hreyfi sig meðan á aðgerðinni stendur. Efnið lamar líka öndunarvöðva og því er sjúklingurinn í öndunarvél meðan á aðgerð stendur.