Dýr með stóran heila þurfa undantekningarlaust að hvílast og sofa reglubundið.
Þetta getur verið vandasamt fyrir hvali, sem eins og öll önnur spendýr þurfa að anda að sér lofti.
Hvalir hafa þó dregið úr þörf sinni fyrir að anda með því að þróa þann hæfileika að geta haldið niðri í sér andanum í allt að tvo tíma, en það gerir þeim kleift að kafa mjög djúpt eftir fæðu.
Þekking vísindamanna á svefni hvala er takmörkuð þar eð erfitt er að fylgjast með þessum skepnum og gera á þeim mælingar.
Mest er vitað um svefn tannhvala, m.a. vegna rannsókna á dýrum í haldi manna. Þannig hafa menn séð að höfrungar geta legið grafkyrrir í yfirborðinu og fallið í djúpan svefn.
Hvalafræðingar hafa líka séð að höfrungar geta synt í svefni og mætti kalla það einhvers konar hálfsvefn.
Við þessar aðstæður skiptast heilahvelin á um að vera vakandi og annast nauðsynlegustu heilastarfsemi, svo sem að halda áttum og koma upp á yfirborðið þegar þeir þurfa að anda.
Slíkum hálfsvefni geta höfrungar sofið í allt að sólarhring og það getur komið sér vel t.d. á langferðum.
Hvalir geta sem sagt sofið lengur en þeir geta verið í kafi, þar eð þeir hafa þróað miðtaugakerfið þannig að þeir geti í svefni komið upp á yfirborðið til að anda.
Nýlega hafa hvalafræðingar einnig aflað nýrrar þekkingar á svefni búrhvala.
Vísindamennirnir fylgdust þá með hópi búrhvala sem stóðu upp á endann í vatninu. Hvalirnir létu sig síga hægt niður á við en syntu upp á yfirborðið til að anda á um 12 mínútna fresti.
Vísindamennirnir álíta að hvalirnir nái þannig talsvert djúpum svefni og fylgist nánast ekkert með umhverfinu.
Skíðishvalir, svo sem hnúfubakar, hafa líka sést liggja grafkyrrir í yfirborðinu og sökkva aðeins lítils háttar áður en þeir koma upp aftur eins og fyrir tilverknað ósjálfráðra viðbragða.
Þessi ósjálfráðu sundviðbrögð tryggja hvölunum loft meðan þeir sofa, ámóta sjálfkrafa og við drögum andann meðan við sofum.
Steypireyður er skíðishvalur eins og hnúfubakar og því liggur beint við að álykta að steypireyðurin beiti svipuðum aðferðum við að sofa.