Frá sjónarhóli líffræðinnar mynda sveppir fylkingu út af fyrir sig, rétt eins og dýr, plöntur og bakteríur.
Þeir aðgreinast frá bakteríum með því að hafa erfðamassa sinn í frumukjarna, frá dýrum með því að hafa frumuvegg og frá plöntum með því að frumuveggurinn er úr kítíni en ekki sellulósa. Öfugt við plöntur, en eins og dýr, er engin blaðgræna í sveppum þannig að þeir geta ekki stundað ljóstillífun heldur verða að brjóta niður lífræn efni sem aðrar lífverur hafa skapað.
Eftir aðferðum sínum við þetta verkefni, er sveppum skipt í þrennt: rotsveppi, sníkjusveppi og sambýlissveppi. Rotsveppirnir hafa lífsviðurværi sitt af að brjóta niður dautt, lífrænt efni, svo sem fallin tré, sölnuð lauf, dýrahræ eða saur. Sveppirnir nota ensím til að brjóta efnið niður í sameindir, t.d. sykur og amínósýrur, sem þeir taka svo til sín sem næringu. Að þessu leyti gegna rotsveppirnir veigamiklu hlutverki sem sorpeyðingarstöðvar í náttúrunni.
Sníkjusveppir bíða ekki eftir að lífveran deyi heldur ráðast á hana lifandi. Þessir sveppir valda sjúkdómum en drepa ekki endilega hýsil sinn.
Þriðja sveppagerðin þrífst í samstarfi við hýsilplöntur. Þessir sveppir skjóta löngum þráðum niður í rætur jurtarinnar og soga þaðan til sín sykur og önnur lífræn efni. Á móti sjá þér hýsilplöntunni fyrir fosfór og öðrum steinefnum sem þeir vinna úr jarðveginum. Þeir geta líka verndað rætur plöntunnar gegn sníkjusveppum og svöngum ormum.