Þegar við fáum vægt rafstuð og rafneisti hrekkur af okkur, er ástæðan svokallað stöðurafmagn.
Án þess að hafa hugmynd um getum við oft orðið ofhlaðin eða vanhlaðin rafeindum. Þetta getur gerst þegar við göngum yfir gólf eða fötin núast við áklæði á húsgögnum. Þessi stöðurafmagnshleðsla getur valdið því að spennumunurinn fari yfir 2.000 volt og þá stekkur neisti á milli þegar maður snertir leiðandi efni, t.d. hurðarhún. Neistinn stafar af snöggri afhleðslu við snertinguna.
Gólfefni, áklæði, föt okkar og skór gegna hér stóru hlutverki ásamt loftrakanum. Yfirleitt safnast helst upp stöðurafmagn að vetri til, en þá er loftið jafnan fremur þurrt og leiðir því uppsafnað stöðurafmagn síður burt.