Blátannarbúnaður, sem margir kalla reyndar „Bluetooth“ er heiti á þráðlausum samskiptastaðli. Tæknin náði skjótt útbreiðslu m.a. vegna þess að með henni má flytja mikið gagnamagn með afar lítilli orku. Með Blátönn má líka tengja allt að 8 rafeindatæki að því einu tilskildu að þau séu nálægt hvert öðru, því yfirleitt er drægnin ekki nema um 10 metrar.
Samskiptin gerast með útvarpsbylgjum á tíðnisviði milli þeirra sviða sem notuð eru af sjónvarpstækjum og fjarskiptahnöttum. Blátönnin skiptir um tíðni 1.600 sinnum á sekúndu en tíðnin er alltaf á bilinu 2,402 til 2,485 gígarið. Þessi tíðniskipti auka öryggi og koma í veg fyrir truflanir frá öðrum tækjum.
Fyrsta útgáfan kom fram 1998 og gat flutt 1 MB á sekúndu, en sú nýjasta ræður við 24 MB á sekúndu. Hvers eðlis sem gögnin eru, flytjast þau sem stafræn merki borin af útvarpsbylgjum. Þess má geta að eiginlega er Blátönn ekki þýðing á Bluetooth heldur öfugt. Tæknin heitir nefnilega eftir Haraldi konungi Blátönn sem ríkti í Danmörku á 10. öld.