Ljósmyndir voru yfirleitt teknar á filmu, sem þurfti að framkalla með ljósnæmum efnum í myrkri og voru loks stækkaðar á pappír.
Polaroidvélarnar sameina þetta allt með því að koma bæði filmunni og ljósnæmu efnunum fyrir í sama pappírnum.
Í hefðbundinni myndavél bregst filman við ljósinu sem hleypt er inn um ljósopið og skapar svokallað negatíf, mynd þar sem ljós frá myndefninu birtist í formi þeirra lita sem í það vantar. Á litfilmu verður þannig rautt að prentlitnum cyan, grænt að prentlitnum magenta og blátt verður gult.
Í myrkraherberginu er negatífið svo gegnumlýst yfir pappír með halógensilfurhúð, sem bregst við lýsingunni og skapar hina réttu mynd. Efnin í pappírshúðuninni eru afar ljósnæm og því þarf þetta að gerast í algeru myrkri.
Polaroidvél er hraðvirk myrkrakompa þar sem ljós nær aðeins inn í eitt augnablik eftir að smellt hefur verið af.
Ljósið myndar negatífu á lagskipta filmu en rúllurnar tvær sem ýta myndinni út bæta við efnum, sem fylla út þau svæði á negatífunni sem ekki hafa þegar brugðist við. Þannig er myndin tilbúin á fáeinum sekúndum.
Sex litalög mála heildarmyndina
Polaroidfilma er gerð úr þremur ljósnæmum lögum, sem virkjast hvert um sig af rauðu, grænu og bláu ljósi. Ljósið teiknar negatífa mynd eins og himna úr silfurkristöllum. Undir hverju þessara laga eru svo lög með prentlitunum gulu, magenta og cyan, sem losa framköllunarvökva jafnóðum og myndinni er rúllað út úr vélinni.
Þar sem silfrið hefur losnað í efsta laginu komast litarefnin ekki í gegn. Í staðinn mynda litir úr hinum lögunum tveimur saman litinn á ljósnæma laginu.
Á bláum himni lokar ljósnæma, bláa lagið t.d. fyrir gult litarefni, en magenta og cyan mynda bláan lit.
Polaroidmyndavél er örsmá myrkrakompa
Myndir sem teknar eru á polaroidvél eru framkallaðar samstundis með samþjöppuðum búnaði sem sameinar öll stig hefðbundinnar ljósmyndagerðar í vélinni sjálfri.